Vilja að ríkisstjórnin fari frá

Lilja Rafney Magnúsdóttir, þingmaður VG.
Lilja Rafney Magnúsdóttir, þingmaður VG. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þingmenn Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs gerðu að umtalsefni sínu erlent félag í eigu eiginkonu Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra á Alþingi í dag í umræðum um störf þingsins. Lilja Rafney Magnúsdóttir, þingmaður VG, sagði að tvær þjóðir byggju í landinu, „valdaelítan“ sem geymdi fjármuni sína erlendis og „hinn sauðsvarti almúgi.“

Gagnrýndi Lilja Rafney Sigmund og eiginkonu hans fyrir að geyma fé sitt í skattaskjóli erlendis á meðan almenningur í landinu ætti að hafa sína fjármuni á Íslandi og standa undir rekstri samfélagsins. Einnig gagnrýndi hún Sigmund fyrir að koma ekki í þingið og gera þingmönnum grein fyrir málinu. Kallaði hún eftir því að ríkisstjórnin færi frá.

Björn Valur Gíslason, varaformaður VG, sagði Sigmund hafa búið yfir öllum upplýsingum um kröfuhafa um föllnu bankana á sama tíma og hann hafi verið í nánum tengslum við einn kröfuhafa og vísaði þar til eiginkonu hans. Hann hafi ekki ætlað að upplýsa um þessi tengsl sín fyrr en blaðamenn hafi farið að spyrjast fyrir um málið.

Sigmundur hafi ekki heldur upplýst Bjarna Benediktsson fjármálaráðherra um málið. Málið væri mjög alvarlegt. Kallaði hann eftir viðbrögðum forseta Alþingis við málinu. Meðal annars til þess að vísa því til stofnana eins og umboðsmanns Alþingis eða Fjármálaeftirlitsins. Svandís Svavarsdóttir, þingflokksformaður VG, tók undir þetta og kallaði eftir því að boðað yrði til kosninga. Staða ríkisstjórnarinnar væri óboðleg og mál væri að linnti.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert