Nauðgaði 15 ára stúlku

Héraðsdómur Reykjavíkur.
Héraðsdómur Reykjavíkur. mbl.is

Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi 21 árs karlmann fyrr í mánuðinum í tveggja og hálfs árs fangelsi fyrir nauðgun. Brotið átti sér stað 17. júní 2013 þegar að hann var átján ára en fórnarlambið 15 ára stúlka. Hann var sakaður um að hafa haft samræði við stúlkuna gegn vilja hennar inn á baðherbergi íbúðar þar sem þau voru bæði gestkomandi.

Málið var sett í rannsókn eftir að stúlkan ræddi nauðgunina við geðhjúkrunarfræðing á BUGL. Þar kom fram að stúlkan hefði verið í miðbænum 17. júní ásamt félögum sínum og drukkið þar töluvert áfengi. Fór hún síðan ásamt félögum sínum á heimili manns í miðbænum en ekki munað nákvæmlega hvar. Þar dró gerandinn hana inn á baðherbergi og kom fram vilja sínum þrátt fyrir að hún hafi neitað að gera það sem hann bað hana um. Hún gat ekki spornað við sökum ölvunar og þreytu.

Maðurinn neitaði sök og sagði samfarirnar hafa farið fram með samþykki stúlkunnar. Framburður hans fyrir dómi var ekki talinn trúverðugur en hann hafði gefið misvísandi skýrslur hjá lögreglu, tvær mismunandi útgáfur við lögreglu og svo hina þriðju fyrir dómi. Þar hélt hann því fram að hann og stúlkan hefðu sammælst um kynmök eftir að hafa verið að kyssast og knúsast sem stúlkan hefur alltaf neitað. Hún segist hafa verið verulega ölvuð og kannaðist ekki við að hafa verið að kyssa hann.

Þegar að ákærði og brotaþoli fóru inn á baðherbergið voru tvö vitni í húsinu, húsráðandi og félagi brotaþola. Húsráðandinn kvaðst ekki hafa séð ákærða og brotaþola kyssast og félaginn mundi ekki eftir hvort þau höfðu verið að kyssast. Að öðru leyti var framburður þeirra óljós um aðdraganda þess að þau fóru inn á baðherbergið.

Maðurinn hefur ekki áður hlotið refsingu en fyrir utan fangelsisdóminn var honum gert að greiða stúlkunni 1,2 milljónir í  miskabætur og málsvarnarlaun verjanda síns og þar að auki þóknun réttargæslumanns stúlkunnar.

Hér má sjá dóm Héraðsdóms Reykjavíkur í heild sinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert