„Stundum getur verið erfitt að labba inn í líkamsræktarstöð“

Þeir Stefán og Sigurður búa að víðtækri reynslu af því …
Þeir Stefán og Sigurður búa að víðtækri reynslu af því að starfa með ungu fólki. Styrmir Kári

Þegar sálarlífið er í ójafnvægi er líkaminn oft látinn sitja á hakanum. Fyrir ungt fólk sem á erfitt með að fóta sig í samskiptum við aðra getur virst nær ógerlegt að taka fyrstu skrefin í hverskonar íþróttaiðkun, sérstaklega þegar valið virðist einkum standa á milli hópíþrótta eða troðfullra líkamsræktarstöðva.

Það er einmitt þess vegna sem uppeldis og menntunarfræðingurinn Stefán Ólafur Stefánsson og einkaþjálfarinn og íþróttafræðingurinn Sigurður Kristján Nikulásson ákváðu að byrja með námskeiðið „Ekki gefast upp“. Þeir hafa lifað og hrærst í íþróttum alla sína tíð auk þess sem þeir hafa báðir víðtæka reynslu af því að starfa með ungu fólki sem glímir við andlega vanlíðan.

„Þegar einstaklingar glíma við andlega vanlíðan getur oft verið erfitt að fara hreyfa sig, þrátt fyrir að áhuginn sé kannski til staðar. Það getur líka verið erfitt að labba bara inn í næstu líkamsræktarstöð þar sem er ógrynni af fólki og því vildum við skapa umhverfi sem miðar að því að mæta þessum einstaklingum,“ segir Stefán í samtali við mbl.is.

Vilja auka við flóru meðferðarúrræða

„Ekki gefast upp” er fjögurra vikna námskeið fyrir ungmenni á aldrinum 13 til 17 ára sem glíma við andlega vanlíðan s.s. þunglyndi, félagsfælni og kvíða. Á námskeiðinu er farið yfir grundvallaratriði líkamsræktar ásamt ávinning hennar á andlega líðan.

„Æfingarnar eru blanda af styrktar og úthaldsþjálfun og miða að því að keppa við sjálfan sig og engan annan. Við leggjum mikið upp hvatningu, persónulegri nálgun og að skapa skemmtilegt og þægilegt umhverfi,”  segir Stefán. „Það er mikilvægt að mæta einstaklingnum þar sem hann er staddur.”

Hann segir nafn námskeiðsins vera dregið af því hversu stórt það skref að byrja að hreyfa sig reglubundið getur verið. Þeir félagar hafi viljað auka við flóru meðferðarúrræða fyrir ungmenni sem glíma við andlega vanlíðan og fundist skortur á þessari tegund nálgunar. Æft sé í lokuðum sal með fáum iðkendum  og reynt sé að skapa hvetjandi umhverfi.

„Fjöldinn allur af rannsóknum sýna fram á jákvæð tengsl milli hreyfingar og andlega líðan. Forsendan fyrir því þó að geta hreyft sig reglubundið er að upplifunin af henni sé góð en ekki neikvæð. Því er það markmið námskeiðsins að skapa jákvæða upplifun af hreyfingunni fyrir einstaklinginn.“

Hægt er að kynna sér námskeiðið betur á facebook.com/ekkigefastupp en skráning er hafin á ekkigefastupp@gmail.com. Næsta námskeið hefst 3. maí en kennt verður á þriðjudögum og fimmtudögum kl. 16.30.

mbl.is