Íslendingar á vinnuskjölum Jóhannesar

Höfuðstöðvar Mossack Fonseca lögmannsstofunnar í Panama city í Panama. Í …
Höfuðstöðvar Mossack Fonseca lögmannsstofunnar í Panama city í Panama. Í þætti SVT sást í vinnuskjöl Jóhannesar í tengslum við rannsókn hans á leka skjala frá lögmannsstofunni. AFP

Í fréttaskýringaþætti SVT sem sýndur var í gær og mbl.is fjallaði um í dag, bregður upp mynd af skjali með nöfnum fjölda Íslendinga og þeir tengdir við aflandsfélög í tengslum við lekann á Panama-skjölunum. Fjölmiðlamaðurinn Jóhannes Kr. Kristjánsson, segir á Facebook-síðu sinni að um sé að ræða vinnupunkta en ekki listann sem meðal annars var gefið í skyn að yrði birtur í lok umfjöllunar Kastljóss á sunnudaginn.

Vegna fréttar dv: Þetta er ekki listinn. Enda koma þau ekki á svona handhægu formati. Það hefði einfaldað ansi margt. Þarna birtast punktar sem við unnum með á tímabili.

Posted by Johannes Kr Kristjansson on Thursday, 7 April 2016

Meðal einstaklinga sem koma fram á listanum eru fjárfestirinn og fyrrverandi Alþingismaðurinn Finnur Ingólfsson, fjárfestirinn Róbert Wessman og ritstjórinn Eggert Skúlason. Þá er Sindri Sindrason, fyrrverandi stjórnarformaður Eimskipafélagsins, á listanum sem og félagið Falson & co sem Bjarni Benediktsson, forsætisráðherra tengdist.

Finnur staðfesti í samtali við mbl.is að hann hafi átt helmingshlut í viðkomandi félagi á móti viðskiptafélaga sínum, en félagið nefndist Adair. Segir hann að félagið hafi verið stofnað árið 2007 í gegnum Landsbankann í Lúxemborg. „Landsbankinn stýrði því félagi alveg,“ segir Finnur og bætir við að það hafi verið í lítilsháttar fjárfestingum, en síðar hafi þeir fjármunir tapast að fullu. Félagið hafi verið gert upp og lokað árið 2010. Finnur segist ekki hafa hugmynd um hvort þetta hafi verið einhvern veginn í gegnum lögmannsstofuna Mossack Fonseca í Panama, en það hafi þá verið alveg í gegnum Landsbankann.

Upplýsingafulltrúi Róberts Wessman sendi í dag tilkynningu vegna málsins en þar kemur fram að Róbert hafi stofnað fjárfestingafélagið Aceway í samstarfi við Landsbankann í Lúxemborg og var félagið skráð í Panama. Tilgangur félagsins var að halda utan um eign Róberts í lyfjafyrirtækinu Actavis og uppsetning félagsins var samkvæmt ráðgjöf Landsbankans á þeim tíma. Actavis var á þessum tíma skráð í Kauphöll Íslands og eign Róberts í gegnum áðurnefnt félag því ávallt opinber í tilkynningum til Kauphallar.

Þá segir jafnframt að til skoðunar á þessum tíma hafi verið að skrá Actavis í erlenda kauphöll og var því talið heppilegast að Aceway væri sett upp með þessum hætti. Tekið er fram að Róbert hafi alltaf tilkynnt um eign sína í félaginu til skattayfirvalda á Íslandi sem og tekjur félagsins verið skattlagðar sem launatekjur hans en ekki fjármagnstekjur.Þá segir að félagið hafi ekki haft starfsemi síðan á árinu 2007 með afskráningu Actavis úr Kauphöll Íslands.

Eggert Skúlason, ritstjóri DV er einnig á þessum vinnulista. Hann staðfestir í samtali við mbl.is að hafa átt félag á aflandssvæði, en að ekki sé um rétt nafn félagsins að ræða á listanum sem birtur var. Hann segir að ríkisskattstjóri hafi gert rannsókn á félaginu eftir hrun og málið hafi ratað alla leið fyrir yfirskattanefnd. Þar hafi niðurstaðan verið að hann sigraði að langstærstum hluta og meðal annars verið dæmd málsvarnarlaun. Rannsókn sérstaks saksóknara á málin var í kjölfarið felld niður. Málið snérist um hvort arðgreiðslur úr félaginu væru tekjur.

Jebb. það er opinbert. Kallinn er í Panamaskjölunum. Sætti rannsókn skattayfirvalda og því máli er lokið. Greiddi skatta...

Posted by Eggert Skúlason on Thursday, 7 April 2016

Eggert segir að hann þekki ekkert til lögmannsstofunnar í Panama og hann hafi alltaf upplifað það þannig að félagið væri skráð í Lúxemborg í gegnum Landsbankann. Segir hann bankann alfarið hafa séð um þetta og að í raun hafi á sínum tíma viðskiptavinir margir hverjir þurft að biðjast undan því að fá þjónustu sem þessa.

Aðspurður um hlutverk félagsins segist Eggert ekki ætla að fara í smáatriði. Hann bendir þó á að á þessum tíma hafi hann starfað hjá Avion group sem var með starfsemi í 60 löndum. Hann hafi ekki verið kjörinn fulltrúi eða fréttamaður á þessum tíma og sé búinn að gera grein fyrir öllum sínum málum við skattayfirvöld hér á landi.

Fleiri einstaklingar eru á listanum sem tengjast Avion group eða Eimskipafélagi Íslands frá því á árunum fyrir hrun. Þannig er Sindri Sindrason, fyrrum stjórnarformaður félagsins, á honum. Í samtali við mbl.is staðfestir hann að hafa átt í nokkrum aflandsfélögum, en að þau hafi öll verið í gegnum Landsbankann í Lúxemborg. Hann segir þau ekki lengur vera í umsjá sinni og að þau séu ekki við líði lengur.

Segir Sindri uppsetningu félaganna hafa verið samkvæmt ráðleggingum bankans, en að þótt einhver tenging hafi verið við Panama hafi fjármálin sjálf alltaf verið í Lúxemborg hjá Landsbankanum þar. Aðspurður hvort félagið tengist viðskiptum í tengslum við Avion segist Sindri ekki þekkja þar, um hafi verið að ræða nokkur félög sem hann átti mismunandi mikinn hlut í.

Eins og fyrr segir er um að ræða vinnupunkta Jóhannesar Kr. og útlistar hann því á Facebook-síðu sinni að ekki sé um „listann“ að ræða, en þar á hann væntanlega við áframhaldandi vinnu við birtingu upplýsinga úr lekanum.

Fjölmargir Íslendingar eru á listanum sem birtist í þætti SVT.
Fjölmargir Íslendingar eru á listanum sem birtist í þætti SVT. Mynd/Skjáskot af SVT
Finnur Ingólfsson
Finnur Ingólfsson Golli / Kjartan Þorbjörnsson
Eggert Skúlason, ritstjóri DV.
Eggert Skúlason, ritstjóri DV.
Jóhannes Kr. Kristjánsson.
Jóhannes Kr. Kristjánsson.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert