„Ég mun koma okkur upp úr þessu“

Sprungan virðist ekki svo hættulegt, fyrst á að líta.
Sprungan virðist ekki svo hættulegt, fyrst á að líta. Ljósmynd/Bjartur Týr Ólafsson

Síðastliðinn fimmtudagur var bjartur og fagur þegar fjallaleiðsögumaðurinn Bjartur Týr Ólafsson lagði af stað upp á Hvannadalshnúk ásamt erlendum ferðamanni. Kjöraðstæður voru á hnúknum og stefnan var tekin á toppinn.

Í rúmlega 2.000 metra hæð kom Bjartur hins vegar að sprungu, sem er svo sem ekki óalgengt, en sprungan var lúmsk og Bjart grunaði ekki að þessi fallegi dagur myndi taka ansi krappa beygju örfáum augnablikum síðar þegar hann féll 20 metra niður í sprungu ásamt ferðamanninum. 

„Aðstæðurnar á hnúknum eru ofboðslega skrýtnar núna. Í þessum vorferðum eru sprungurnar lokaðar eða fullar af snjó þannig að hættan við að detta í sprungu í apríl og maí er mjög lítil, samanborið við í júlí til dæmis.

En þetta hefur verið óvenjulegur vetur að einhverju leyti, hvort það sé hitinn, snjómagn eða einhverjar hreyfingar í jöklinum, þá eru sprungurnar óvenju mikið opnar miðað við árstíma,“ segir Bjartur sem hefur starfað sem leiðsögumaður hjá Íslenskum fjallaleiðsögumönnum í rúm tvö ár. Áhugann á fjallamennsku má rekja töluvert lengra aftur þrátt fyrir ungan aldur Bjarts sem er 23 ára Vestmannaeyingur.  

„Vinnufélagi minn hafði farið tveimur dögum áður og ég spurði hann út í aðstæður og hann sagði mér að sprungurnar væri ansi stórar og ég var því með varann á þegar ég lagði af stað. Þegar við erum að ganga yfir sprungur leitum við að snjóbrúm, þar sem sprungan er lokuð og hægt er að ganga yfir snjóinn. Ég var búinn að gera það hingað til og það gekk vel.“

Stefnan var tekin á toppinn

Aðstæður voru með besta móti þennan fimmtudag því kalt var í veðri. „Það var skítkalt þannig að snjórinn var mjög harður og allar snjóbrýr sem við höfðum gengið yfir voru mjög traustar að sjá og manni leið ekki illa að ganga yfir þær. Það gaf mér ákveðið öryggi að við gætum náð á toppinn þrátt fyrir að sprungurnar væru tiltölulega opnar, því færið var gott.“

Þegar Bjartur og viðskiptavinur fyrirtækisins voru komnir í um 2.000 metra hæð og stutt eftir á toppinn komu þeir að enn einni sprungunni. „Ég kem að sprungunni og stíg yfir hana og líður ekkert illa með það og held áfram, sný mér við og aðvara kúnnann og segi honum að taka stórt skref. Ég hélt línunni strekktri eins og maður á að gera og hann fer yfir og við það hrynur talsvert magn af snjó, kannski 4-5 fermetrar.

Þó svo að línan hafi verið strekkt var fallið það mikið og höggið sem kom í kjölfarið togaði mig niður með honum. Ég reyndi eins og gat að stoppa mig með því að nota ákveðna tækni með ísöxinni til að bremsa, en þetta var það mikið sem féll og höggið mikið að ég næ ekki að stoppa mig og kastast ofan í sprunguna með honum.“

Bjartur áætlar að þeir hafi hrapað um 20 metra ofan í sprunguna en þar lentu þeir á snjósyllu „Ótrúlegt en satt þá vorum við báðir í lagi eftir fallið, það er ekkert að sjá á mér nema einn lítill marblettur á höndinni.“

Aðstæður á Hvannadalshnúki voru til fyrirmyndar þennan dag, og var …
Aðstæður á Hvannadalshnúki voru til fyrirmyndar þennan dag, og var Bjartur bjartsýnn á að komast á toppinn. Ljósmynd/Bjartur Týr Ólafsson

Féllu um 20 metra ofan í sprungu

Aðspurður um hvað hafi komið upp í huga hans þegar hann áttaði sig á hvað var að gerast segir Bjartur að það sé erfitt að rifja það upp.

„Auðvitað varð maður hræddur og brá við. Þetta var einhvern veginn ekki dagur sem maður var að búast við svona, veðrið var fullkomið og snjórinn það harður að það voru varla spor eftir okkur. Ég veit ekki alveg hvað ég hugsaði, þetta gerðist svo hratt, en allt í einu stoppuðum við.“

Sprungan var dýpri en 20 metrar svo Bjartur segir það óhuggulegt að hugsa til þess hvernig hefði getað farið. „Það er svo sem möguleiki að við hefðum getað fallið miklu lengra þó það sé ekki gaman að ræða það. Við lendum þarna saman í snjó sem stíflast hafði í sprunginni, sem hægt er að kalla snjósyllu.“

Bjartur og ferðamaðurinn lágu þétt saman á snjósyllunni eftir fallið. „Hann lá við hliðina á mér og hafði þá tilfinningu að snjórinn væri veikur undir sér og þorði því ekki að hreyfa sig. Ég tók af mér bakpokann og sótti í hann ísskrúfu sem ég skrúfaði inn í ísinn og náði þannig að tryggja kúnnann.

Ég tryggi svo sjálfan mig í sömu ísskrúfu og hjálpa honum á fætur. Ég leit svo upp og hugsaði með mér hvað við gætum gert. Ég segi honum strax að ég ætli að koma okkur upp úr þessu en það gæti tekið einhvern tíma og að hann yrði að vera rólegur. Ég sagði honum líka að það yrði kalt þarna niðri þannig ég gaf honum dúnúlpuna mína og sagði honum að halda áfram að nærast.“

Klifurreynslan kom sér vel

Ofan í sprungunni var hvorki síma- né talstöðvasamband. Bjartur sá tvo möguleika í stöðunni: Annað hvort að bíða eftir því að tekið yrði eftir því að hann væri ekki búinn að láta vita af sér í talstöðinni eða að reyna að klifra upp sjálfur, ótryggður.  

„Ég er klifrari og nýti allan minn frítíma í það að klifra, á sumrin í klettum og á veturna í ísfossum. Það hjálpaði til alveg helling, einhver sem er ekki með klifurreynslu hefði líklega ekki getað klifrað þarna upp úr.“

Útbúnaðurinn sem Bjartur var með í göngunni var hins vegar ekki sá hentugast fyrir ísklifur. „Í ísklifri er maður með tæknilegar klifuraxir sem eru beittar og bognar og þægilegt að halda á. Fyrir göngu eins og upp á Hvannadalshnúk er maður bara með beina, létta, ísöxi sem er ekki með þægilegu gripi og ekki hönnuð fyrir klifur. Við vorum hvor með sína öxlina, mín var aðeins beittari. Broddarnir sem við vorum með eru ekki klifurbroddar, heldur göngubroddar og eru því ekki jafn beittir og þungir og klifurbroddar.“

Mokaði með öxinni í gegnum þykkt snjólag

Bjartur lagði hins vegar af stað upp ísvegginn, en til að greiða sér leið þurfti hann að moka í gegnum lóðréttan snjóinn sem var ofan í sprungunni til að komast almennilega að ísnum.

„Klifrið var því frekar undarlegt vegna snjósins, þar sem axirnar grípa ekki í hann. Ég byrjaði því á að moka mig um metra inn í snjóinn þar til ég fann ísinn sem ég gat klifrað í. Tæknin sem ég notaði var sú að ég kom beittari öxinni vel fyrir og nota svo sigbeltið mitt til að setjast í öxina, þá gat ég notað hina öxina til að moka snjónum frá ísnum.

Þá náði ég að lemja hinni öxinni í þannig ég gat losað öxina sem ég var fastur í og kom henni fyrir aftur. Þetta endurtók ég svo þar til ég komst upp úr sprunginni. Þetta tók sjálfsagt djöfullega langan tíma en ég geri mér ekki alveg grein fyrir því.“ Bjartur telur þó að rúmlega tveir klukkutímar hafi liðið frá því að þeir féllu ofan í sprunguna og þar til þeir voru komnir upp úr henni aftur.

Þegar Bjartur var kominn upp úr sprungunni bjó hann til eins konar akkeri úr ísnum með öxinni. Þannig náði hann að setja sterkan spotta utan um ísinn og tókst svo að draga manninn upp úr sprungunni. „Við erum vel þjálfuð í sprungubjörgun þannig þetta var í raun í fyrsta skipti þegar mér leið vel, ég var kominn inn í mitt „comfort zone,“ farinn að gera sprungubjörgun sem er eitthvað sem við erum vön að gera á æfingum og svo er maður alltaf eitthvað að hugsa og stúdera.“

Ferðamaðurinn var að sjálfsögðu ánægður þegar Bjarti tókst að toga hann upp úr sprungunni. „En ég held að hann hafi ekki alveg kveikt á perunni hversu alvarlegt þetta hefði getað orðið. Hann panikkaði allavega aldrei og mér tókst að halda honum rólegum strax frá byrjun með því að segja að ég myndi bjarga okkur úr þessu.“

Ferðamaðurinn vildi ólmur halda áfram eftir sprunguævintýrið. „Fyrsta sem hann spyr mig þegar hann kom upp úr sprungunni var hvort við ætluðum að toppa. Við vorum kannski svona korteri frá því að standa á toppnum, en klukkan var orðin allt of margt þannig ég sagði honum að við yrðum að snúa við.“

Ferðamaðurinn er ekki vanur fjallamaður en Bjartur segir að það hafi komið sér vel að hann hafi verið í góðu formi.

„Við náðum að halda góðum hraða allan tímann. Á leiðinni niður ræddum við þetta og ég sem leiðsögumaður þurfti auðvitað að passa að hann væri ekki hræddur þannig ég reyndi bara að vera léttur og segja einhverja brandara. En ég sagði honum að sjálfsögðu að þetta hefði ekki verið eðlilegt og við hefðum verið heppnir að ekki fór verr.“

Bjartur er björgunarsveitarmaður að upplagi og hefur starfað sem leiðsögumaður …
Bjartur er björgunarsveitarmaður að upplagi og hefur starfað sem leiðsögumaður hjá Íslenskum fjallaleiðsögumönnum í rúmlega tvö ár. Hér er hann við Tvíburagil, fyrr í vetur. Ljósmynd/Af Facebook

Hrósað af samstarfsfólki sínu

Þegar Bjartur var búinn að skila ferðamanninum til baka á hótelið sitt segir hann þó að þá hafi áfallið aðeins gert vart við sig. Bjartur sagði svo samstarfsfólki sínu frá ævintýrum dagsins og aðspurður um viðbrögðin frá þeim segir Bjartur að hann hefði fyrst og fremst fengið hrós fyrir viðbrögð sín.

„Þau voru auðvitað sjokkeruð líka og við höfðum samband við einn af reyndari leiðsögumönnum okkar og við fórum í sameiningu vel yfir atburðinn. Í rauninni var erfitt að finna eitthvað sérstakt sem fór úrskeiðis. Þetta hefði getað gerst fyrir hvern sem er.“

Bjartur þakkar þeirri góðu þjálfun sem hann hefur fengið hjá Félagi fjallaleiðsögumanna og Íslenskum fjallaleiðsögumönnum að allt fór vel að lokum. „Við fáum góða og mismunandi þjálfun sem hentar hverjum aðstæðum fyrir sig. Þetta prógramm er virkilega gott.“

Bjartur ætlar nú að taka sér örstutt frí frá fjallamennskunni en mun koma ferskur inn í sumar. „Þetta er vinna sem mér finnst ótrúlega skemmtileg og er í rauninni áhugamál sem varð að vinnu og er algjör ástríða. Ég dreg risastóran lærdóm af þessu, mun meiri lærdóm en að ganga 100 sinnum þarna upp, en ég verð kominn á aftur á fjöll fljótlega.“

mbl.is