Leiðinlegt mál fyrir alla

Alda Hrönn Jóhannsdóttir og Gunnar Scheving Thorsteinsson.
Alda Hrönn Jóhannsdóttir og Gunnar Scheving Thorsteinsson. mbl.is/Júlíus/Kristinn

„Þetta er leiðinlegt fyrir alla sem hlut eiga að máli. En það er líka deginum ljósara að það þarf að leiða þessi mál til lykta, sama hver á í hlut,“ segir Snorri Magnússon, formaður Landssambands lögreglumanna um kæru á hendur Öldu Hrannar Jóhannsdóttur, aðallögfræðings hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.

Gunnar Scheving Thorsteinsson, lögreglumaður, og fyrrverandi starfsmaður fjarskiptafyrirtækisins Nova, sem voru sakborningar í LÖKE-málinu, hafa kært Öldu Hrönn vegna rannsóknar hennar á þeim og krefjast þess að hún verði svipt embætti sínu.

Frétt mbl.is: Aflaði illa fenginna trúnaðargagna

Frétt mbl.is: „Bar á mig tilbúnar sakir án tilefnis“

Aðspurður segir Snorri að kæra Gunnars hafi ekki komið honum á óvart. „Ekki miðað við það sem ég hef heyrt frá Gunnari. Það kemur alls ekki á óvart að hann skyldi fara með málið áfram.“

Í sambandi við lögmann Gunnars

Hann segir Landsamband lögreglumanna hafa verið í sambandi við lögmann hans til að kanna stöðu málsins. „Þetta er ákvörðun sem þessi lögreglumaður tekur og hins vegar þessi fyrrverandi starfsmaður Nova og þeir leggja fram þessar kærur í eigin nafni. Landssamband lögreglumanna er búið að vera í sambandi við lögmann lögreglumannsins til að sjá hvernig hann sér fyrir sér næstu skref í málinu,“ segir Snorri og bætir við að málið sé stutt á veg komið. „En þetta eru ansi alvarlegar ávirðingar sem koma fram í þessum kærum, það er ljóst.“

Þyrfti líklega að víkja

Héraðssaksóknari mun fara yfir kærurnar og ákveða í framhaldinu hvort hafin verði rannsókn á málinu. Snorri segir líklegt að Alda Hrönn þurfi að víkja úr stöðu sinni ef málið verður rannsakað en lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu ákveður það.

Færi heim á fullum launum

Snorri telur einnig líklegt að Alda yrði á fullum launum ef henni yrði vikið tímabundið úr starfi, að því gefnu að hún sé ekki skipaður embættismaður, eins og raunin er með lögreglumenn. Annars yrði hún send heim á hálfum launum.

Ekki náðist í Öldu Hrönn við vinnslu fréttarinnar. 

Snorri Magnússon, formaður Landssambands lögreglumanna.
Snorri Magnússon, formaður Landssambands lögreglumanna.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert