Síðnýlendustefna á Íslandi

Álver Norðuráls á Grundartanga.
Álver Norðuráls á Grundartanga. mbl.is/Árni Sæberg

Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata, líkti því sem hún kallaði útsölustefnu í raforkumálum á Íslandi við síðnýlendustefnu á Alþingi í dag. Hún spurði Bjarna Benediktsson, fjármálaráðherra, hvort hann hefði látið reikna út af hverju miklum tekjum þjóðarbúið hafi orðið af vegna útsölu á raforku til stóriðju.

Í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi gagnrýndi Birgitta stefnu íslenskra stjórnvalda í raforkusölumálum til stóriðju. Fyrirtæki eins og Norðurál hafi alltof lengi haldið raforkuverði niðri og beitt til þess öllum meðölum. Landsvirkjun ynni ennþá að því að laða erlend fyrirtæki til landsins með útsöluverði á orkunni.

Bjarni sagðist geta samsinnt Birgittu með það að Norðurál hafi notið hagstæðra kjara í samanburði við aðra stóriðju í landinu en auðvelt væri að gagnrýna aftur í tímann undir lok langtímasamninga. Á þeim tíma þegar samningurinn var gerður hafi ekki margir staðið í biðröð eftir að kaupa orku.

Því væri spurning Birgittu ótæk. Engum öðrum kaupanda hafa verið sleppt í stað þess sem hafi fengist. Bera þurfti saman ávinning þess samnings við það að ef ekki hefði verið virkjað og raforka seld. Svarið við því birtist í eiginfé Landsvirkjunar sem nemi nú um 200 milljörðum króna.

Rifjaði upp mótmæli Birgittu

Birgitta spurði einnig út í samning Alcoa á Reyðarfirði sem hún sagði byggja á svipuðum grunni og samningur Norðuráls. Hann gildi jafnframt til ársins 2048. Vildi hún vita hvort ráðherrann hefði áætlað hversu mikið tapaðist á þeim þjóðhagslega óhagkvæma samningi og hvort eitthvað væri hægt að gera í honum áður en hálf öld líður.

Bjarni rifjaði þá upp að Birgitta hafi verið í hópi mótmælenda gegn virkjanaframkvæmdum en hún brást illa við því og kallaði ítrekað fram í ræðu ráðherrann. Sagðist hann algerlega á öndverðri skoðun en Birgitta þegar hún talaði um gjafaverð á raforku. Horfa þyrfti á mikinn ávinning af orkusölunni fyrir samfélagið. Þau væru hins vegar í sama liði þegar kæmi að því að fá hámarksverð fyrir rafmagnið.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert