Sköpunargleðin í hámarki í Biophiliu

Nemendur frá Dalskóla sýndu dansatriði sem var eins konar óður …
Nemendur frá Dalskóla sýndu dansatriði sem var eins konar óður til Biophiliu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Mikið líf og fjör var í Ráðhúsi Reykjavíkur í dag, en þar fór fram uppskeruhátíð Biophiliu-menntaverkefnisins. Hátt í fjögur hundruð börn frá átta skólum, leikskólum og frístundamiðstöðvum hafa tekið þátt í verkefninu, sem byggir á samnefndu listaverki og hugmyndafræði Bjarkar Guðmundsdóttur.

„Biophilia er stórmerkilegt verkefni – fyrir margra hluta sakir. Það er auðvitað mjög sérstakt að heimsfræg listakona skuli hafa áhuga á því að efla og styrkja menntun barna, og að hún skuli leggja sitt af mörkum eins og raun ber vitni,“ sagði Sóley Tómasdóttir, forseti borgarstjórnar, í opnunarræðu sinni á hátíðinni í dag.

Djarft að tengja tónlist og tækni

Sýningin verður opin um helgina, en þar er fagnað afrakstri þess frjóa starfs sem farið hefur fram í leikskólum, grunnskólum og frístundamiðstöðvum í Reykjavík í norrænu samstarfsverkefni um Biophiliu. Þátttakendur í verkefninu eru Austurbæjarskóli, Dalskóli, Frístundamiðstöðin Gufunesbær, Fossvogsskóli, leikskólinn Miðborg, leikskólinn Kvistaborg, Sæmundarskóli og Vogaskóli.

Með verkefninu er sköpunargáfan virkjuð sem kennslu- og rannsóknarverkfæri og tónlist, tækni og náttúruvísindi eru tengd saman á nýstárlegan hátt. Áhersla er lögð á að styrkja nemendur í sjálfstæðri hugsun og efla sjálfstraust þeirra með virkri þátttöku, tilraunum, leik og sköpun. Verkefnið er tilraun til þess að brjóta upp hefðbundið kennsluform með þverfaglegri nálgun og spjaldtölvum, þar sem jafnt kennarar sem nemendur kanna nýjar slóðir.

Sóley sagði það hafa verið djarft og hugrakkt af Björk að tengja tónlistina við tækni eins og hún gerði fyrir fimm árum, þegar ipadar og öpp voru alls ekki eitthvað sem allir þekktu. „En Björk er ekki bara frumkvöðull á sviði tónlistar og tækni – heldur sýnir hún aðdáunarvert örlæti með þessu framlagi sínu til barna í Reykjavík og um allan heim. Að hún skuli færa okkur listaverkið sitt til að leika okkur með það – læra af því og skapa gegnum það er dýrmætt og einstakt.“

Dansar, hljóðfæri úr reiðhjóli og risavaxinn kristall

Á uppskeruhátíðinni voru flutt fimm atriði, og var sköpunargleðin í hámarki. Nemendur frá Dalskóla sýndu dansatriði sem var eins konar óður til Biophiliu. Þá sýndu nemendur úr Fossvogsskóla brot úr stuttmynd sem þau gerðu, við góðar undirtektir viðstaddra. Leikskólinn Kvistaborg var einnig með atriði, en hann er fyrsti leikskólinn sem tekur þátt í verkefninu. Leikskólabörnin unnu með tunglið og sköpuðu sinn eigin himingeim.

Þá var einnig sýnd stuttmynd frá eldri nemendum í Dalskóla sem unnu með kristalla, og sköpuðu m.a. risavaxinn kristal sem hægt er að fara inn í. Miðborgarleikskólinn var einnig með atriði, en þau sungu þau lagið Góða Tungl eftir hljómsveitina Samaris. Að lokum sýndu ellefu nemendur úr 7. bekk í Fossvogsskóla hljóðfæri sem þau bjuggu til úr reiðhjóli.

Fullfær um að vinna með mjög flóknar hugmyndir á skapandi hátt

Biophilian hennar Bjarkar varð að menntaverkefni eftir að hún leitaði eftir samstarfi við Háskólafólk og kennara í Reykjavík um að þróa kennsluleiðbeiningar og verkefni úr hugmyndum sínum. Fyrstu tilraunirnar voru gerðar á smiðjum í Hörpu árið 2011 í samstarfi Háskólans og Reykjavíkurborgar. Smiðjurnar heppnuðust vel og leiddu til frekari vinnu – þar sem ákveðið var að þróa verkefnið áfram og nýta það við kennslu og nám í Reykjavík – og svo á öllum Norðurlöndunum í framhaldinu.

„Enda gerðist það árið 2014 – þegar Ísland var í formennsku fyrir Norrænu ráðherranefndina að mennta- og menningarmálaráðuneytið valdi Biophiliu til að verða eitt af sérstökum áhersluverkefnum næstu þrjú árin. Það þýddi að okkar íslenska Biophilia fór líka til borga á hinum Norðurlöndunum með sérstökum styrk frá Norrænu ráðherranefndinni, undir styrkri stjórn menntamálaráðuneytisins. Við erum nú í þann mund að ljúka þriðja og síðasta árinu í því ferli – með þátttöku Reykjavíkurborgar og Háskóla Íslands – og þessi sýning er sett upp sérstaklega til að fleiri geti notið þeirra sköpunarverka sem hafa orðið til á tímabilinu,“ sagði Sóley.

Þá sagði hún að eins og sjá megi á verkum barnanna þá séu þau sýnt að þau eru fullfær um að læra mjög flókin viðfangsefni og vinna með mjög flóknar hugmyndir á skapandi hátt.

Í stýrihópi um verkefnið hafa setið þau Curver Thoroddsen fulltrúi Bjarkar Guðmundsdóttur, sem einnig er sýningarstjóri á sýningunni, Svava Pétursdóttir fyrir hönd menntavísindasviðs Háskóla Íslands, Guðrún Bachmann kynningarstjóri vísindamiðlunar hjá Háskóla Íslands og Harpa Rut Hilmarsdóttir sem stýrir verkefninu í Reykjavík og er formaður stýrihóps. Biophilia-menntaverkefnið er samstarfsverkefni Mennta- og menningarmálaráðuneytis, Norrænu ráðherranefndarinnar, Reykjavíkurborgar, Háskóla Íslands og Bjarkar Guðmundsdóttur.

Biophilia from Mixtúra SFS Reykjavík on Vimeo.

mbl.is