Lífið leikur við landverðina

Landverðirnir Jóhanna Katrín og Davíð Örvar eru ánægðir með lífið …
Landverðirnir Jóhanna Katrín og Davíð Örvar eru ánægðir með lífið og tilveruna í Mývatnssveit. mbl.is/Golli

Landverðirnir Davíð Örvar Hansson og Jóhanna Katrín Þórhallsdóttir búa saman á Grímsstöðum í Mývatnssveit og eiga tvær dætur, tveggja mánaða og fjögurra ára.

Þau kynntust í Hjálparsveit skáta í Reykjavík en náin kynni tókust með þeim eftir að þau hittust aftur norður í Mývatnssveit árið 2011. Jóhanna Katrín starfaði þar sem hálendisfulltrúi hjá Vatnajökulsþjóðgarði en Davíð var þar í gönguskíðaferð. Á þessum tíma starfaði hann við landvörslu á hálendinu á sumrin en þau eru bæði uppalin á höfuðborgarsvæðinu.

„Ég var í vinnu sem kennari við Menntaskólann í Kópavogi en fékk starf í Mývatnssveit. Ári síðar kom Davíð í gönguskíðaferð og fór aldrei aftur,“ segir Jóhanna Katrín og brosir.

Þórhildur Jökla, eldri dóttir Davíðs og Jóhönnu, leikur sér við …
Þórhildur Jökla, eldri dóttir Davíðs og Jóhönnu, leikur sér við ömmu sína. Eins og sjá má er útsýnið yfir fjöllin fagurt og gott. mbl.is/Golli

Fögur er fjallasýnin

Þau eru búin að koma sér vel fyrir á bökkum Mývatns á Grímsstöðum í litlu samfélagi stórrar fjölskyldu sem er þaðan. Umhverfið þar er gullfallegt og fjallasýnin stórfengleg með Búrfell, Hverfjall, Bláfjall, Sellandafjall, Námafjall, Hlíðarfjall og Vindbelgjarfjall allt í kring. Í góðu skyggni má einnig sjá Bárðarbungu og Dyngjufjöll. 

Vinna í sama húsi 

Davíð starfar nú hjá Umhverfisstofnun við landvörslu og ýmsa stjórnsýslu vegna friðlýstra svæða á Norðausturlandi.

Auk þess að búa saman vinna þau í sama húsi, gamla kaupfélagshúsinu í Reykjahlíð. Þar eru Umhverfisstofnun og Vatnajökulsþjóðgarður með skrifstofur.  „Við erum að sinna sambærilegum störfum en fyrir hvort sína stofnunina og hvort sitt svæðið. Við vorum pínu stressuð þegar Davíð fékk tilboð um vinnuna. Þetta eru eiginlega einu störfin á svæðinu sem snúast um mjög svipaða hluti og við vissum ekki hvernig það myndi ganga að búa saman og vinna líka í sama húsi,“ segir Jóhanna.

Kindurnar stiltu sér upp fyrir ljósmyndarann á Grímsstöðum.
Kindurnar stiltu sér upp fyrir ljósmyndarann á Grímsstöðum. mbl.is/Golli

Hluti af fjölskyldunni 

Áhyggjurnar voru óþarfar því allt hefur þetta gengið vel fyrir sig. Jóhanna segir þau vera gott dæmi um að það sé vel gerlegt að flytja út á land án þess að hafa áður haft nokkur tengsl við svæðið. Hún segir að nágrannar þeirra á Grímsstöðum hafi reynst þeim afar vel og séu í raun orðin sem hluti af fjölskyldunni.

„Þegar við eignuðumst barn vorum við svo heppin að vera í aðstæðum sem hjálpa manni svo mikið. Hérna er þessi stórfjölskylda í kringum mann og dóttir okkar á ömmu í hverju húsi. Það er ekki gefið að maður detti inn í þetta. Svo hefur okkur tekist glettilega vel að taka þátt í einu og öðru hérna í kring. Ég er í sveitarstjórn og Davíð í menningarfélaginu. Það er ekki jafnerfitt og maður gæti ætlað að flytja inn í svona samfélag.“

Þórhildur Jökla leikur sér úti í garði.
Þórhildur Jökla leikur sér úti í garði. mbl.is/Golli

Laus við áreitið úr Reykjavík

Davíð tekur undir þetta: „Við erum eiginlega komin með fjölskyldu að heiman og hér líður okkur vel. Mýtan um að það sé erfitt að flytja af höfuðborgarsvæðinu út á land og það sé svo erfitt að blandast er rökleysa. Hérna er mjög gott að búa og maður gírar sig niður um marga gíra. Hérna er ekki allt þetta áreiti sem er í Reykjavík. Við mælum með þessu.“

Jóhanna tekur þó fram að færðin geti verið erfið á veturna það hafi gerst að þau komist ekki í jólamatinn í næsta húsi vegna veðurs. Einnig getur verið langt í næsta lækni og fólk þurfi að taka það með í reikninginn þegar það flytur á stað sem þennan. „En þeir sem eru til í þetta þá er þetta alveg súper“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert