Aðild Íslands enn fjarlægari hugmynd

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins.
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins og fjármála- og efnahagsráðherra, segir niður­stöðu þjóðar­at­kvæðagreiðslu Breta um veru þeirra í Evrópusambandinu „pólitísk stórtíðindi“ sem geri hugmyndina um Ísland í Evrópusambandinu enn fjarlægari.

Spurður hvort niðurstaðan hafi komið sér á óvart segir Bjarni að það hafi verið mjög erfitt að ráða í stöðuna fyrir fram. „Kannanir í Bretlandi voru misvísandi en einmitt þess vegna getur þetta ekki komið manni mjög á óvart,“ segir hann í samtali við mbl.is.

„Þetta eru pólitísk stórtíðindi, ekki bara fyrir Bretlandi heldur fyrir Evrópusamvinnuna alla. Þetta er mjög lýsandi fyrir það sem hefur verið að gerast undanfarin ár þar sem við höfum séð átök milli þess arms innan Evrópusamvinnunnar sem hefur viljað stöðugt meiri samruna og dýpri samvinnu og  hinna, sem hafa verið að sækja mjög í sig veðrið bæði í Evrópuþingskosningunum en líka í flokkapólitík einstakra aðildarlanda, sem hafa sagt hingað og ekki lengra og telja ríkin hafa gengið of langt í samvinnunni. Þetta byrjaði sem friðar- og tollviðskiptasamband og að mati margra á að halda sig við þann kjarna samvinnunnar og hætta að skipta sér um of af daglegu lífi fólks.“

Bjarni segir að þessi ágreiningur kristallist í kosningunni í Bretlandi. „Meira að segja þær tilslakanir sem David Cameron sagði að væri nauðsynlegar og lagði fyrir þjóðina þóttu ekki fullnægjandi að mati kjósanda,“ segir Bjarni.

Mögulega áminningin sem Evrópuþingið þurfti

Hann telur að nú taki við nýir og breyttir tímar í Evrópusamvinnunni og að þessi niðurstaða hafi hugsanlega verið áminningin sem Evrópuþingið og leiðtogar annarra aðildarríkja þurftu á að halda, þ.e. að fólki væri alvara um að farið væri of hratt yfir og langt í afskiptum af innri málefnum aðildarríkjanna.

Þá finnst Bjarna sú ákvörðun David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, að víkja í ljósi niðurstöðunnar mjög í anda þess hvernig Cameron hefur starfað á ferlinum. „Hann barðist mjög heiðarlega í sinni baráttu og lagði allt sitt í hana. Hann var sömuleiðis mjög afdráttarlaus og skýr í þeirri yfirlýsingu sem hann gaf í morgun um að hann sæi ekki fyrir sér hvernig hann ætti að leiða viðræður við Evrópusambandið í ljósi þessara niðurstaða og taldi annan kost vera betri.“

Munu leggja kapp á að viðhalda góðu sambandi við Bretland

Bjarni segir að íslensk yfirvöld muni gera allt sem þau geta til þess að lágmarka áhrif niðurstöðunnar á utanríkisviðskipti þjóðarinnar við Breta og samskipti. „Við munu  leggja allt kapp á að viðhalda þeim góðu tengslum sem við höfum haft,“ segir Bjarni. Bendir hann á að Bretland muni líklega ekki yfirgefa sambandið formlega fyrr en eftir rúm tvö ár í fyrsta lagi en augljóslega hljóti niðurstöðurnar að hafa mikil áhrif um mögulega aðild Íslands að Evrópusambandinu í framtíðinni „sem meirihluti landsmanna hefur aldrei séð fyrir sér að ætti að gerast,“ segir Bjarni.

„Í mínum huga er hún enn fjarlægari hugmynd eftir þessa niðurstöðu því öll Evrópusamvinnan er nú til endurskoðunar.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka