Breska þjóðaratkvæðið „furðuflipp“

Árni Páll Árnason, þingmaður Samfylkingarinnar.
Árni Páll Árnason, þingmaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Styrmir Kári

„Lýðræði snýst ekki um að ná einu sinni meira en helmingi kjósenda, á óljósum forsendum. Þvert á móti er lýðræðiskerfi okkar og friður og velsæld Vesturlanda byggt á skuldbindingu um sameiginleg örlög og að lönd deili byrðum með þeim hætti að sum leggja stundum miklum mun meira af mörkum en önnur. Furðuflipp Camerons gaf 36% breskra kjósenda færi á að hoppa af þeim vagni, með ófyrirséðum afleiðingum fyrir álfuna alla.“

Þetta segir Árni Páll Árnason, þingmaður Samfylkingarinnar og fyrrverandi formaður flokksins, á Facebook-síðu sinni um niðurstöður þjóðaratkvæðisins í Bretlandi þar sem samþykkt var að segja skilið við Evrópusambandið. Vísar hann til hlutfalls þeirra sem samþykktu úrsögn af öllum sem voru á kjörskrá. „Þjóðaratkvæðagreiðslur geta verið nauðsynlegar stundum, en þær brjóta niður þetta net lýðræðisins sem við höfum byggt upp í Vestur-Evrópu, þar sem fjölbreyttir hagsmunir vegast á og fólk ræðir sig að niðurstöðu.“

Árni segir þjóðaratkvæðagreiðslur enn fremur „kljúfa ríki og þjóðir og brjóta niður samfélagslega samheldni.“ Þær auki enn fremur átök og kljúfi fólk í fylkingar. Það hafi verið raunin í Icesave-þjóðaratkvæðagreiðslunum og einnig í þjóðaratkvæðinu í Skotlandi um sjálfstæði frá Bretlandi. Þar hafi afleiðingin verið hreinn meirihluti Skoska þjóðarflokksins og hrun Verkamannaflokksins. Hann segir það sama vera nú að gerast á landsvísu í Bretlandi.

mbl.is