Hvattir til að deila íslensku efni

Skjáskot

„Kæru notendur Deildu. Mig langar að biðja ykkur um að deila inn öllu íslensku efni sem þið mögulega getið. Allt sem þið finnið/eigið endilega setjið það inn á síðuna. Sýnið að við erum öll Pirates Yarr!“

Þannig hljóða skilaboð sem birt eru á áberandi stað efst á skráaskiptasíðunni Deildu.net sem íslensk höfundaréttarsamtök hafa háð áralanga baráttu gegn. Samtökin hafa bæði kært síðuna til lögreglunnar og farið fram á lögbann á aðgengi netnotenda að henni á þeim forsendum að deilt sé í gegnum hana íslensku höfundaréttarvörðu efni.

Skilaboðin á Deildu.net virðast hugsuð sem svar við tilraunum höfundaréttarsamtakanna til þess að stöðva starfsemi vefsíðunnar. Ekki er gerður neinn greinarmunur á því hvort efni sé höfundaréttarvarið eða ekki heldur nær hvatningin einfaldlega til alls íslensks efnis. Hvergi er heldur í reglum síðunnar bann við því að deila höfundaréttarvörðu efni.

Hvatningin er rituð í fyrstu persónu eintölu og má ætla að hún sé rituð af stjórnanda Deildu.net. Fyrr í dag fjallaði mbl.is um það að höfundaréttarsamtök hér á landi hafi lagt fram kæru á hendur einstaklingi sem þau telja að standi á bak við skráaskiptasíðuna. Kæran er byggð á upplýsingum sem tæknifyrirtæki var fengið til þess að afla um hann.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka