Telja sig hafa fundið höfuðpaurinn

AFP

„Við erum að kæra þann sem við grunum að standi á bak við Deildu.net. Síðan er það núna komið í hendur lögreglu að rannsaka það og í framhaldinu tekur ákæruvaldið ákvörðun um það hvort viðkomandi verður ákærður.“

Þetta segir Guðrún Björk Bjarnadóttir, framkvæmdastjóri Samtaka tónskálda og eigenda flutningsréttar (STEF), í samtali við mbl.is en fern íslensk höfundarréttarsamtök hafa lagt fram kæru á hendur einstaklingi sem þau telja að sé stjórnandi skráaskiptasíðunnar Deildu.net. Þá hefur Félag rétthafa í sjónvarps- og kvikmyndaiðnaði (FRÍSK) einnig lagt fram kæru á hendur nokkrum notendum síðunnar fyrir að hafa deilt í gegnum hana íslenskum sjónvarpsþáttum og kvikmyndum.

Frétt mbl.is: Kæra stjórnanda Deildu.net

Guðrún segir að höfundarréttarfélögin hafi notið aðstoðar utanaðkomandi tæknifyrirtækis við að hafa uppi á umræddum einstaklingi. Einungis hafi tekið fyrirtækið einn dag að finna þær upplýsingar sem hafi beint félögunum á ákveðna braut. „Þannig að við töldum okkur vera komin með nýjar upplýsingar sem ástæða væri að til að koma áfram til lögreglu til að rannsaka frekar.“ STEF kærði lögregluna í október á síðasta ári fyrir seinagang í rannsókn á Deildu.net.

Spurð um þá ákvörðun FRÍSK að kæra nokkra af notendum Deildu.net án þátttöku hinna höfundarréttarsamtakanna segir Guðrún að í rannsókn tæknifyrirtækisins hafi nöfn nokkurra einstaklinga komið upp sem hafi greinilega verið mjög stórtækir í að setja inn íslenskt efni á Deildu.net.

Hin höfundarréttarsamtökin hafi kosið að taka ekki þátt í þeirri kæru enda hefði það verið mikil stefnubreyting af hálfu þeirra. Þau hafi lagt áherslu á það til þessa að fara ekki á eftir einstökum notendum heldur reyna heldur að hafa uppi á þeim sem væru að reyna að græða á slíkri starfsemi.

mbl.is