Ræðir við landlækni um sjúkrahús

Kristján Þór Júlíusson, heilbrigðisráðherra.
Kristján Þór Júlíusson, heilbrigðisráðherra. mbl.is/Styrmir Kári

Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra ætlar að fara yfir það með landlækni og starfsfólki ráðuneytis síns á næstunni hvernig bregðast eigi við áformum MCPB ehf. um að reisa stórt sjúkrahús og hótel í Mosfellsbæ.

„Þær fréttir og viðtöl sem af þessu hafa birst frá forsvarsmönnum verkefnisins eru þannig að það veldur manni nokkrum áhyggjum hvernig á að standa að þessu,“ sagði Kristján Þór í viðtali við Í bítið á Bylgjunni í morgun.

„Það á að liggja í hlutarins eðli að slík uppbygging hlýtur að eiga sér stað í sátt við íslenskt heilbrigðisskerfi, íslenskt heilbrigðisstarfsfólk og í góðri sátt við íslenskt samfélag ef þetta á að geta orðið að veruleika.“

Frétt mbl.is: Heyrði fyrst af áformunum í fréttum

Slæmt ef efnahagur fólks ráði aðgengi að læknisþjónustu

Kristján Þór segir það valda sér áhyggjum að heyra forsvarsmann verkefnisins lýsa því yfir að Íslendingar geti keypt sig inn í meðferðir á sjúkrahúsinu. Það þýði að efnahagur fólks geti ráðið því hvaða aðgengi það hafi að þjónustunni. Einnig veldur það honum áhyggjum að hægt sé að nálgast verkefnið með þeim hætti að það sé ekkert mál að leggja af stað í 50 milljarða byggingarkostnað og eftir það verði sótt um leyfi og gengið úr skugga um hvort hægt sé að fá leyfi fyrir starfseminni.

„Þetta er eitthvað sem ég tel að eigi ekki að ganga með þeim hætti þegar er verið að ræða svona stórt verkefni. Þegar áhyggjur okkar fagfólks eru með þeim hætti sem birst hafa á undanförnum dögum.“

Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, greindi frá því fyrir skömmu að forsvarsmenn verkefnisins væru byrjaðir að tala við íslenska hjartalækna og unga lækna. Kristján Þór kvaðst einnig hafa heyrt af slíku frá öðrum heimildarmönnum en Kára.

Mosfellsbær.
Mosfellsbær. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Hitti Brugada í ráðuneytinu

Uppbygging og rekstur spítalans á að vera í samstarfi við spænska hjartalækninn dr. Pedro Brugada. Kristján Þór hitti Brugada í heilbrigðisráðuneytinu í byrjun maí vegna áforma hans um að fá að nýta skurðstofu í klíníkinni í Ármúla.

„Hann mætti með sitt föruneyti og við það var tekin afskaplega góð mynd ef svo má segja sem hefur vakið alls konar hugrenningar hjá fólki,“ sagði hann.

„Skilaboð mín til hans voru að þessar hugmyndir skyldi hann ræða við landlækni og síðan við forsvarsmenn Landspítala-háskólasjúkrahúss og sérstaklega hjartadeildarinnar þar,“ sagði Kristján um áform hans um að nýta klíníkina í Ármúla.

mbl.is