Baldvin hefur safnað mestu allra

Baldvin Rúnarsson (t.v.) fór á alla leiki Íslands í Frakklandi. …
Baldvin Rúnarsson (t.v.) fór á alla leiki Íslands í Frakklandi. Undirbúningurinn fyrir maraþonið hófst að móti loknu. Ljósmynd/Baldvin Rúnarsson

Akureyringurinn Baldvin Rúnarsson trónir á toppnum yfir þá sem mestu hafa safnað í Reykjavíkurmaraþoninu með tæpar 1,2 milljónir króna. Hann segir söfnunina þó ekki vera neina keppni heldur sé það gaman að geta látið gott af sér leiða.

Baldin hleypur fyrir Krabbameinsfélag Akureyrar og nágrenis en hann greindist sjálfur með heilaæxli fyrir þremur árum. Félagið reyndist honum þá vel en útvega þurfti honum íbúð á meðan hann dvaldist í bænum á meðan á lyfja- og geislameðferð stóð. Hann bjó í bænum í um það bil tvo mánuði á síðasta ári.

„Ég sagði við vini mína og foreldra að ég myndi ná einni milljón. Pabbi hló að því og átti ekki von á því að markmiðið myndi nást,” segir Baldvin. Segist hann núa föður sínum fyrri staðhæfingu um nasir á léttu nótunum.

Þetta er í fyrsta skipti sem Baldvin tekur þátt í maraþoni. Hann langaði mikið að taka þátt í fyrra en var þá í miðri lyfjameðferð svo maraþonhlaup hefði þá reynst honum um megn. „Núna er ég ekki í geisla- eða lyfjameðferð, heilsan er fín svo ég ákvað að slá til,” segir hann. „Æxlið er að haga sér, það er ekki að stækka eða neitt. Lyfja- og geislameðferðirnar í fyrrasumar gengu vel og ég er nokkurn veginn frískur í dag.”

Spurður hvort hann sé búinn að æfa stíft fyrir hlaupið segist hann hlaupa þrisvar, fjórum sinnum í viku, fimm til tíu kílómetra í senn. „Ég er búinn að vera í útlöndum allt árið sem endaði með því að ég fór á alla leiki Íslands í Frakklandi. Eftir að Ísland datt út þá byrjaði ég að æfa.”

Styrktarsíðu Baldvins í Reykjavíkurmaraþoninu má finna hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert