Beikonóð beikona komin til Íslands

Reykja­vík Bacon Festi­val eða Mat­ar­hátíð alþýðunn­ar verður hald­in í sjötta sinn á morg­un. Í tilefni þess er komin hingað til lands beikondrottningin 2016, eða beikonan eins og hún er kölluð. Mbl.is hitti beikonuna og skipuleggjendur hátíðarinnar í Víðidal.

Beikonan heitir Allison Schafer og er frá Iowa, þar sem stærsta beikonhátíð heims er haldin á ári hverju. Henni er ýmislegt til lista lagt en hún sýndi okkur meðal annars færni sína með boga og örvar.

Reykjavik Bacon Festival fer fram á Skólavörðustíg á milli 14 og 17 líkt og síðustu ár. Hátíðin hef­ur fest sig í sessi og gest­um henn­ar hef­ur fjölgað ár frá ári en þeir voru um 50 þúsund á síðasta ári. Skipu­lagn­ing henn­ar er öll unn­in í sjálf­boðavinnu og renn­ur ágóði hátíðar­inn­ar til góðgerðar­mála.

Á hátíðinni geta gest­ir og gang­andi notið bei­kon­inn­blás­inna rétta frá veit­inga­stöðum, drykkja og fjölda skemmti­atriða. Ekki er þó eingöngu um beikonhátíð að ræða þetta árið þar sem allur landbúnaðurinn kemur að henni þetta árið og er hún nú orðin að Matarhátíð alþýðunnar.

Beikonan kallar ekki allt ömmu sína en það vakti töluverða athygli vestanhafs þegar hún steikti beikon á hlaupi byssu með því að skjóta úr henni, eftir að hún var krýnd beikondrottning. Það er ljóst að hún fer nýstárlegar leiðir við eldamennskuna en hún sýndi okkur hvernig hægt er að steikja beikon á bílvél.

Það er Hið ís­lenska bei­kon­bræðralag sem stend­ur að hátíðinni. Hátíðin er syst­ur­hátíð Blue Rib­b­on Bacon Festi­val, stærstu bei­kon­hátíðar í heimi, sem hald­in er í Des Mo­ines í Iowa-ríki Banda­ríkj­anna hvert ár.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert