Bogi settur ríkissaksóknari

Alda Hrönn Jóhannsdóttir.
Alda Hrönn Jóhannsdóttir. mbl.is/Júlíus

Innanríkisráðuneytið hefur sett Boga Nilsson, fyrrverandi ríkissaksóknara, til að gegna embætti ríkissaksóknara í máli tveggja manna sem kærðu Öldu Hrönn Jóhannsdóttur, yfirlögfræðing á skrifstofu lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, fyrir meint brot í starfi í LÖKE-málinu svokallaða.

Þetta kemur fram í frétt á vef Ríkisútvarpsins. Hlutverk Boga verður að fela löghæfum manni að fara með málið sem héraðssaksóknari og að fara með stjórnunar- og eftirlitsheimildir. 

Áður hefur komið fram að embætti héraðssak­sókn­ara og rík­is­sak­sókn­ara hafa lýst sig van­hæf til meðferðar mála mannanna. 

Ann­ar kær­enda er Gunn­ar Scheving Thor­steins­son lög­reglumaður og hinn er fyrr­ver­andi starfsmaður fjar­skipta­fyr­ir­tæk­is­ins Nova.

Menn­irn­ir kærðu Öldu fyrr í mánuðinum fyr­ir rang­ar sak­argift­ir og brot í starfi og krefjast þeir þess að hún verði svipt embætti og lög­manns­rétt­ind­um.

Gunn­ar var sak­felld­ur í Hæsta­rétti Íslands fyr­ir að hafa greint vini sín­um frá því á Face­book að hann hafi verið skallaður af ung­um dreng við skyldu­störf. Gunn­ari var ekki gerð refs­ing í mál­inu en hann var upp­haf­lega grunaður um að hafa flett upp kon­um í LÖKE og deilt upp­lýs­ing­um um þær í lokuðum Face­book-hópi með fyrr­nefnd­um starfs­manni Nova og lög­manni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert