Mikil veikindi hjá starfsfólki Icelandair

Veikindi starfsfólks um borð í flugvélum Icelandair hafa aukist svo mikið að fyrirtækið hefur gripið til umfangsmikilla aðgerða. Félagið lítur málið alvarlegum augum og hefur óskað eftir aðstoð rannsóknarnefndar samgönguslysa. Þetta kemur fram á vef RÚV.

Fram kemur í fréttinni, að það sé áberandi að tilkynningar komi frekar frá yngra fólki með lágan starfsaldur en þeim sem eru eldri og reyndari.

Vísað er í bréf sem Icelandair sendi áhöfnum félagsins vegna málsins í síðustu viku. Þar kemur fram, að á hverjum tíma séu 400 áhafnarstarfsmenn í loftinu. Því sé ekkert óeðlilegt að einhverjir veikist eða finni fyrir vanlíðan. Bent er á, að nýlega hafi hins vegar orðið töluverð aukning í tilkynningum frá áhöfnum vegna veikinda um borð. Fyrirtækið líti þetta alvarlegum augum enda leggi það áherslu á að starfsumhverfi áhafna sé með sem bestum hætti.

Enn fremur segir að í kjölfar aukins fjölda hafi hvert tilfelli verið skoðað og greint í samstarfi við trúnaðarlækni. Atvikin séu misjöfn og eigi fátt sameiginlegt. Þau hafi dreifst á flestar vélar í flotanum, bæði Boeing 757 og 767.

mbl.is