Kaupþingsmáli lokið í Hæstarétti

Nokkri sakborninga í markaðsmisnotkunarmáli Kaupþings í Hæstarétti í dag.
Nokkri sakborninga í markaðsmisnotkunarmáli Kaupþings í Hæstarétti í dag. mbl.is/Árni Sæberg

Málflutningi í markaðsmisnotkunarmáli Kaupþings fyrir Hæstarétti er lokið. Saksóknari fór fram á að þeir sem voru sýknaði í héraði yrðu sakfelldir og þeir dómar sem féllu væru þyngdir. Verjendur sakborninga fóru fram á sýknu, ómerkingu eða frávísun ákæranna gegn þeim.

Níu fyrrverandi stjórnendur og starfsmenn Kaupþings voru ákærðir í málinu. Sjö þeirra voru sakfelldir í Héraðsdómi Reykjavíkur fyrir markaðsmisnotkun og umboðssvik en tvennt var sýknað og ákærum vísað frá, þau Magnús Guðmundsson, forstjóri Kaupþings í Lúxemborg, og Björk Þórarinsdóttir, lánafulltrúi í lánanefnd Kaupþings.

Saksóknari reið á vaðið kl. 8 í morgun en í kjölfarið færðu verjendur sakborninganna níu rök fyrir kröfum sínum. Málflutningum lauk um kl. 16:20.

Verjendur sjömenninganna sem voru sakfelldir í málinu héldu því fram að skjólstæðingar þeirra hefðu ekki borið ábyrgð á kaupum og síðar sölu á hlutabréfum í Kaupþingi sem saksóknari fullyrti í ákærðu að hafi verið ætlað að halda uppi verði bréfanna og blekkja markaðinn.

Síðust tók til máls Helga Melkorka Óttarsdóttir fyrir hönd Bjarkar Þórarinsdóttur sem var ákærð fyrir umboðssvik. Hún sagði Björk ekki hafa komið að gerða lánasamninga þar sem Kaupþing lánaði tilteknum félögum fyrir kaupum á hlutabréfum sem bankinn hafði sjálfur áður keypt í miklum máli, með litlum eða engum veðum. 

Saksóknari hafi byggt á að aðkoma Bjarkar hafi verið nauðsynleg fyrir útgreiðslu lánveitinga og vísað til tölvupósts þar sem hún hefði samþykkt hana. Verjandinn sagði Björk hins vegar ekki hafa tekið ákvörðun um lánveitingu eða misnotað aðstöðu sína. Samþykki hennar í tölvupóst hafi ekki borist þeim sem önnuðust afgreiðslu lánsins fyrr en eftir að það var um garð gengið. Krafðist hún að sýkna Bjarkar verði staðfest.

Magnús kynnti bréfin í góðri trú

Verjandi Magnúsar fullyrti að hann hefði enga aðkomu eða vitneskju haft um lánveitingar vegna hlutabréfakaupanna og eina hlutverk hans hafi verið að finna kaupendur að bréfunum á meðal viðskiptavina Kaupþings í Lúxemborg. Sá banki hafi verið sjálfstæður og óháður Kaupþingi á Íslandi. Hann hafi því ekki haft þekkingu á starfsemi deildar eigin viðskipta þess banka eða haft neina aðkomu að lánveitingunum.

Hann hafi kynnt viðskiptavinum í Lúxemborg fjárfestingarkostinn í góðri trú án nokkurrar vitneskjum um að nokkuð meint refsivert athæfi byggi að baki.

Ákæruliðum gegn Magnúsi var vísað frá í Héraðsdómi og hann sýknaður af þeim sem eftir stóðu. Verjandi hans sagði til vara að ef hann yrði sakfelldur ætti ekki að gera honum hegningarauka í ljós þungs fangelsisdóms sem hann hlaut í al-Thani-málinu.

mbl.is