Svartur kafli, njósnir og brjálaðar aðgerðir

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson segir fulltrúa slitabúanna hafi lagt ýmislegt á …
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson segir fulltrúa slitabúanna hafi lagt ýmislegt á sig til að hafa áhrif á forsætisráðherrann fyrrverandi. mbl.is/Golli

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins og fyrrverandi forsætisráðherra, segir að ýmislegt hafi gengið á í baráttu hans við slitabú föllnu bankanna, hann hafi m.a. verið eltur til útlanda, sími hans hafi verið hleraður og þá fullyrðir hann að brotist hafi verið í tölvuna hans.

Þetta kom fram í ræðu Sigmundar sem hann flutti á miðstjórnarfundi Framsóknarflokksins sem fór fram á Akureyri í dag. Þar fór hann meðal annars yfir það sem hefði átt sér stað í baráttunni við slitabúin. 

Svarti kaflinn

„Þegar ég flutti ræðuna með svarta kaflanum svokallaða,“ sagði Sigmundur og vísaði til kafla sem hafði fengið þetta nafn því þar ákvað hann að tilkynna að lagður yrði skattur á slitabúin. Hann vildi auk þess ekki að neinn sæi þetta fyrr en hann myndi tilkynna um þetta á flokksþingi Framsóknarflokksins í fyrra.

„Í fyrsta lagi þá vildi ég ekki koma neinum í vandræði með að hafa vitað af þessu. Og í öðru lagi vildi ég ekki menn reyndu að stoppa mig,“ sagði Sigmundur. Umræddur kafli var því svartur þegar menn fengu tækifæri til að lesa yfir ræðuna sem hann flutti á flokksþinginu.

Brotist inn í tölvuna

Sigmundur segist hafa bætt þessum kafla við til að höggva á hnútinn í viðræðum við slitabúin, þ.e. þegar ljóst var að ekkert var að fara gerast í málinu.

Því næst fór Sigmundur yfir það hvernig fylgst var með honum og hann eltur vegna málsins, enda hagsmunirnir gríðarlegir. „Ég gerði alltaf ráð fyrir að það væri fylgst með því sem ég segði í símann. Ég veit að það var brotist inn í tölvuna hjá mér - ég lét skoða það. Og við reyndum, eins og við mögulega gátum, að forðast að hleypa þessum aðilum að okkur,“ sagði Sigmundur og bætti við að þeir hefðu reynt mikið.

Eltur til útlanda

„Þeir eltu mig meira að segja til útlanda,“ bætti hann við. Hann sagði frá því þegar hann hitti Vestur-Íslendinga í Norður-Dakóta í Bandaríkjunum þá hefði maður komið til hans með skilaboð. Hann bauð honum að koma í bjálkahús skammt frá þeim stað þar sem Sigmundur átti að vera. „Það er utan símsambands, algjörlega einangrað, við getum hitt þig þar. Það þarf enginn að vita af þessu, við getum leyst málin og allir geta verið sáttir,“ sagði Sigmundur er hann greindi frá samskiptum sínum við þennan mann.

Hann sagðist einnig hafa verið eltur til London í Bretlandi. Þar hafi farið fram mikil kynning til að kynna fjárfestingartækifæri á Íslandi. Þar segist Sigmundur hafa hitt kurteisa menn sem vildu ná peningum út úr Íslandi, en Sigmundur punktaði þessi samtöl hjá sér. Einn þeirra hafi m.a. sagt við Sigmund að hann væri einungis að leiðbeina forsætisráðherranum unga um það hvernig kaupin gerðust á eyrinni.

Brjálaðar aðgerðir

„Og annað hvort bara nýttu menn sína stöðu til að allir færu sáttir frá því eða það væri lítið mál að beita þeim áhrifum sem menn hefðu til þess að tryggja rétta niðurstöðu. Og það vantaði ekki að það væri fjárfest í því að tryggja rétta niðurstöðu. En það sem skiptir mestu máli, að mínu mati, og ég hef heyrt fleiri halda því sama fram, var flokksþing framsóknarmanna 2015. Þegar við lýstum því yfir hvað ætti að gera og flokkurinn stóð allur saman sem samhent lið í því að bakka upp þessar brjáluðu aðgerðir.“

Munum að okkur tókst það

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert