Fer fram á 10 milljónir í Hæstarétti

Magnús Ver Magnússon
Magnús Ver Magnússon mbl.is/Friðrik Tryggvason

Lögmaður Magnúsar Vers Magnússonar, fyrrverandi handhafa titilsins sterkasti maður heims, fór fram á að Magnúsi yrðu dæmdar 10 milljónir í miska- og skaðabætur af hálfu íslenska ríkisins við fyrirtöku máls hans í Hæstarétti. Snýst málið um eftirlit sem hann varð fyrir vegna rannsóknar á meintri þátttöku hans í innflutningi á fíkniefnum. Deildu lögmenn um hvað teldist rannsóknartímabil og upphæð kröfunnar sem lögmaður ríkisins taldi allt of háa og ekki eðlilega eða sanngjarna.

Magnúsi Ver voru í héraðsdómi í október í fyrra dæmdar 600 þúsund í skaðabætur vegna málsins, en hann hafði farið fram á 10 milljónir. Fór hann fram á bæturnar vegna eftirlits sem hann sætti í þrjú ár í tengslum við rannsókn lögreglu á meintri aðkomu hans að stórfelldum innflutningi á fíkniefnum til landsins. Rannsókn á því var síðar hætt.

Símahlustun, hlustunar- og eftirfararbúnaður

Fylgst var með Magnús með ýmsum hætti meðan rannsóknin stóð yfir, meðal annars var sími hans hleraður og settur var eftirfarar- og hlustunarbúnaður í bifreið hans.

Frétt mbl.is: Varð kjaftstopp og hissa

Í Hæstarétti í dag sagði lögmaður ríkisins að rannsóknin á Magnúsi hefði ekki náð til þriggja ára. Hún hefði varað í tæplega tvö ár, frá nóvember 2012 til október 2014. Þó lögregla hefði fengið upplýsingar um símnotkun Magnúsar frá því í janúar 2012 þá hefði eiginleg rannsókn á honum ekki hafist þá.

Langt rannsóknartímabil og skaðleg fjölmiðlaumfjöllun

Lögmaður Magnúsar sagði notkun þvingunarúrræða lögreglunnar hafa verið beitt í andstöðu við lög og að upplýsingar sem urðu til þess að tengja Magnús fyrst við málið hafi verið óáreiðanlegar. Tók hann sérstaklega fram að rannsóknartímabilið væri langt og bryti á friðhelgi einkalífs Magnúsar og að fjölmiðlaumfjöllun um málið hafi skaðað Magnús.

Traustur uppljóstrari

Lögmaður ríkisins sagði aftur á móti að sá uppljóstrari sem hefði tengt Magnús við málið væri metinn traustur í kerfum lögreglunnar og hefði áður orðið til þess að mál upplýstust. Þá hafi hann einnig bent á innflutning á gámi af áfengi meðan á rannsókn þessa máls stóð. Varðandi tímalengdina sagði lögmaðurinn að í stórum fíkniefnamálum verði að hafa í huga að rannsókn þeirra taki langan tíma, enda geti skipulagning tekið mánuði og jafnvel ár. Þannig verði að gefa lögreglu ákveðið rými til að tilkynna um að rannsókn sé lokið, en eins og fyrr segir var Magnúsi tilkynnt um það tæpum tveimur árum eftir að hann var hleraður og öðrum þvingunarúrræðum beitt.

Frétt mbl.is: Fylgst með honum í tæp 3 ár

Tók lögmaður ríkisins fram að engar upplýsingar væru um að Magnús hafi hlotið skaða af rannsókninni og að í málinu liggi engin gögn um fjölmiðlaumfjöllun frammi. Spurði reyndar einn dómari málsins út í þetta atriði og vísað til þess að í gögnum málsins væri ekkert um þá fjölmiðlaumfjöllun sem hafi valdið meintum skaða.

Sagði Magnús hafa orsakað umfjöllunina

Sagði lögmaður ríkisins að ekkert benti til þess að stefndi hefði orsakað fjölmiðlaumfjöllun, heldur hafi það frekar verið Magnús sjálfur. Sagði lögmaðurinn að það væri erfitt að bera fyrir sig skaðsemi af slíkri umfjöllun sem viðkomandi hafi sjálfur staðið fyrir.

Í héraðsdómi fór lögmaður ríkisins ekki fram á sýknu þess í málinu, heldur að bætur yrðu lækkaðar mikið miðað við kröfu Magnúsar. Var sú afstaða ítrekuð í Hæstarétti og sagði lögmaðurinn að Magnús ætti rétt á „eðlilegum og sanngjörnum bótum m.v. dómafordæmi,“ en að 10 milljóna krafa væri langt umfram það.

Eftir að dómur féll í héraði sagði Magnús við mbl.is að málinu yrði áfrýjað þar sem það snérist um grundvallarmál, þ.e. hvort lögreglan gæti komist upp með að brjóta á mannréttindum borgaranna án þess að það hefði verulegar afleiðingar í för með sér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert