Eldisfiskur veiddist á Vesturlandi

Regnbogasilungurinn sem veiddist í Haffjarðará í vikunni.
Regnbogasilungurinn sem veiddist í Haffjarðará í vikunni. Ljósmynd/Óttar Yngvason

Eldisfiskur hefur veiðst í Haffjarðará á Vesturlandi en um er að ræða regnbogasilung sem líklegt þykir að komi úr fiskeldi. Málið hefur verið tilkynnt til Fiskistofu. Í vikunni greindi Fiskistofa frá því að regnbogasilungur hefði veiðst í ám á Vestfjörðum og er málið til rannsóknar hjá Matvælastofnun.

Fiskistofa sendi frá sér fréttatilkynningu á þriðjudag, þar sem segir að stofnunin hefði fengið ábendingu um að eldisfiskur hefði veiðst í Mjólká í Arnarfirði í síðustu viku. Var eftirlitsmaður sendur á vettvang til að kanna hvort þessar ábendingar reyndust réttar.

„Tveggja daga eftirlitsferð staðfesti að regnbogasilung er nú að finna í ám í Patreksfirði, Tálknafirði, Arnarfirði og Dýrafirði,“ segir í tilkynningunni.

Kort/Map.is

Þá kemur fram, að Fiskistofa hafi ekki fengið tilkynningu um að slysaslepping hafi orðið í fiskeldi á Vestfjörðum, en rekstraraðilum í fiskeldi sé skylt að tilkynna um slys í samræmi við lög um fiskeldi. Fiskistofa upplýsti Matvælastofnun um það að regnbogasilung væri nú að finna í ám á Vestfjörðum og er málið nú í rannsókn.

mbl.is barst svo ábending um að regnbogasilungur hefði einnig veiðst í Haffjarðará í vikunni, sem fyrr segir. Óttar Yngvason var á meðal þeirra en hann tilkynnti málið til Fiskistofu í morgun.

Óttast að veiðiár eyðileggist 

Óttar var að veiða í ánni dagana 11. og 13. september ásamt fleiri þrautreyndum veiðimönnum þegar þrír regnbogasilungar komu upp úr kafinu. Óttar telur líklegt að a.m.k. tveir þeir komi úr fiskeldi.

„Þeir eru með skemmdir sem í hafa sest sveppir. Þeir eru dálítið nuddaðir og uggarnir eru ekki eins og af villtum fiskum,“ segir hann og bætir við að á einn þeirra hafi vantað eyrugga. Aðspurður segir hann að fiskarnir hafi veiðst neðarlega í ánni. „Það hefur greinilega orðið stór slepping af regnbogasilungi,“ bætir hann við.

Spurður um viðbrögð segir hann: „Þetta er erlent aðskotadýr; framandi lífvera sem er sett hér út í náttúruna. Og þó að regnboginn tengist nú varla í náttúrunni hér, þá er þetta mjög truflandi fyrir þá sem eru að stunda veiðar á villtum fiski,“ segir Óttar og bætir við að þetta eyðileggi ímynd hreinnar náttúru. Það þurfi ekki nema örfáa fiska til þess.

Hann víkur máli sínu að því sem hafi gerst í Noregi í tengslum við eldisfisk og það tjón sem hafi orðið þar. „Það eru allar veiðiár landsins undir. Og ef þetta heldur áfram svona þá eru þær allar ónýtar eftir svona tíu til fimmtán ár,“ segir Óttar ómyrkur í máli.

Ljósmynd/Óttar Yngvason

Ekki hægt að útiloka neitt

Guðni Magnús Eiríksson, sviðsstjóri lax- og silungsveiðisviðs Fiskistofu, staðfestir í samtali við mbl.is, að málið hafi verið tilkynnt til stofnunarinnar í morgun, en Óttar kom bæði með fiska og ljósmyndir af fiskum. Þessum sýnum verður komið til Hafrannsóknarstofnunar eftir helgi.

Guðni segir að ekki hafi borist fleiri tilkynningar um að regnbogasilungur hafi veiðst í þessum landshluta. Aftur á móti hafi borist tilkynningar um regnbogasilung í ám og vötnum, m.a. í Vatnsdalsá, Hafralónsá og Breiðdalsá, en sú síðastnefnda tengist líklega sleppingu sem varð í Berufirði í sumar.

Guðni tekur fram að á þessu stigi málsins sé óvíst hvort regnbogasilungurinn sem veiddist á Vesturlandi tengist málinu sem kom upp á Vestfjörðum. Hins vegar sé ekki hægt að útiloka það. Hann bendir á að regnbogasilungur hafi verið notaður í eldi á Íslandi áratugi.

Fiskistofa tekur við öllum tilkynningum um eldisfisk sem hefur veiðst.
Fiskistofa tekur við öllum tilkynningum um eldisfisk sem hefur veiðst. mbl.is/Árni Sæberg

Regnbogasilungur ekki náð fótfestu í íslenskri náttúru

„Það hefur í gegnum tíðina gerst annað slagið að regnbogasilungur hefur veiðst. Það hefur ekki verið gert neitt í þeim málum vegna þess að þetta hafa verið stök tilvik. Regnbogasilungurinn hefur ekki fótfestu hér. Í verulegu mæli eru kvengerðir fiskar notaðir í eldi. Þeir hafa ekki náð fótfestu í íslenskri náttúru og síðan eru þetta aðallega hrygnur sem eru notaðar. Þannig að málin hafa verið skráð en ekki nema í tilvikum eins og núna, að þetta finnst svona víða á Vestfjörðum - fiskur af svipaðri stærð - þá er farið að grafast fyrir um og rannsaka hvort einhver stór slysaslepping hafi orðið og það mál er hjá Matvælastofnun í skoðun,“ segir Guðni.

Aðspurður segir hann að Fiskistofa hafi ekki fengið neina tilkynningu frá fiskeldi um slíka sleppingu. Því hefur verið beint til Matvælastofnunar að skoða það.

Hafrannsóknarstofnun er jafnframt upplýst um málið og fær Fiskistofan ráðgjöf frá stofnuninni um hvernig rétt sé að bregðast við í svona málum. 

Guðni bendir á að Hafrannsóknarstofnun hafi mælt með því að það verði farið varlega í miklar veiðar á regnbogasilungi á svæðunum því veiðarnar komi líka niður á náttúrulegum stofnum og gæti haft neikvæð áhrif á þá, nema eldisfiskar fara að veiðast í mjög miklum mæli.

Hvað varðar fiskana sem veiddust í Haffjarðará segir Guðni: „Eins og þetta lítur út þá geri ég ekki ráð fyrir að við grípum til einhverra sérstakra aðgerða á meðan þetta eru þrjú stök tilvik. En ef eitthvað meira fer að veiðast þá munum við gefa því gaum.“

Loks bendir Guðni á, að Fiskistofa tekur á móti ábendingum um það ef grunur leikur á eldisfiskur hafi veiðst á landinu. Slíkum tilkynningum og ljósmyndum er safnað saman og upplýsingarnar nýttar til frekari athugana.

Frekari athugana þörf

Matvælastofnun segir í svar við fyrirspurn mbl.is, að í kjölfar fyrirspurnar Fiskistofu vegna veiða regnbogasilungs á Vestfjörðum hafi Matvælastofnun haft samband við rekstraraðila á umræddu svæði. Kallað var eftir þeim gögnum sem talið var að gætu varpað ljósi á uppruna fiskanna, en hann er enn óþekktur og frekari athugana er þörf. 

Þá hefur Matvælastofnun verið upplýst um veiðar á regnbogasilungi í Haffjarðará, en málið er enn til formlegrar meðferðar hjá Fiskistofu.

mbl.is
Loka