Óeðlilegt að tala um tískudóp

„Mér finnst ekki rétt að tala um fíkniefnavandamál í fangelsum landsins sem tískudóp eða eitthvað í þeim dúr. Það er léttúðugt og ekki í samræmi við það sem er verið að fjalla um. Þetta er mjög alvarlegt mál sem við erum sífellt að bregðast við,“ segir Páll Winkel fangelsismálastjóri í samtali við mbl.is.

Greint var frá því á visi.is í morgun að nýjasta „tískudópið“ á Litla-Hrauni væri Spice. Það er manngert kannabis sem getur tekið á sig nánast hvaða form sem er.

Páll segir rétt að meira finnist af ákveðnum fíkniefnum en öðrum innan fangelsisins. „Það er vissulega rétt að við leggjum meira hald á eina tegund af lyfi en öðrum en það er breytilegt, það eru sveiflur í þessu. Fyrir tveimur árum síðan var morfín mjög áberandi og þá var verið að mæla betur fyrir því. Þar áður var það amfetamín og rítalín en núna er það kannabis og tengd efni. Þetta fer í hringi og það er breytilegt hvað við leggjum hald á hverju sinni en Spice hefur verið töluvert áberandi síðasta árið í það minnsta.

Fangelsismálastjórinn segir tvennt gert til að reyna að stemma stigu við fíkniefnaneyslu innan veggja fangelsisins. „Við þurfum að gera allt sem mögulegt er til að koma í veg fyrir fíkniefnin komi inn í fangelsin en ekki síður að bjóða upp á meðferð fyrir þá fíkla sem vilja taka á sínum málum. Tískudóp eða tískubylgjur í þessum efnum finnst mér óeðlilegt að tala um.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert