Skiptar skoðanir um borgarlínu

Svona gæti létt­lest litið út á leið sinni milli Smáralind­ar …
Svona gæti létt­lest litið út á leið sinni milli Smáralind­ar og Skeifu. Tölvumynd/Guðbjörg Brá

Nýtt almenningssamgöngukerfi á höfuðborgarsvæðinu, borgarlínan, var til umræðu í borgarstjórn Reykjavíkur í dag. Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri greindi frá heimsókn sinni og fleiri aðila til þriggja erlendra borga nýverið til að kynna sér fyrirmyndir í lestarmálum. Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokks, telur rökréttara að efla Strætókerfið.

Frétt mbl.is: Leita góðra fyrirmynda í lestarmálum

Nauðsyn að þétta byggð höfuðborgarsvæðisins

Borgarstjóri ræddi nýtt svæðisskipulag sem unnið var af sveitarfélögunum á höfuðborgarsvæðinu með aðkomu Vegagerðarinnar auk fleiri aðila sem samþykkt var síðasta sumar og gildir til ársins 2040.

Íbúum höfuðborgarsvæðisins muni fjölga um 70.000 til ársins 2040 og við því þurfi að bregðast, ekki síst hvað varðar að þétta byggð fremur en að auka útvíkkun til útjaðra höfuðborgarsvæðisins og þar gegni almenningssamgöngur lykilhlutverki, að óbreyttu stefni í óefni að mati borgarstjóra.

Frétt mbl.is: Kostnaður á bilinu 40-90 milljarðar

Gert hefur verið samkomulag við Vegagerðina um framtíðarmöguleika borgarlínu og kallaðir hafa verið til erlendir sérfræðingar. Segir borgarstjóri að ljóst sé að hraða þurfi vinnu vegna borgarlínunnar og Samband sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu hafi ákveðið að borgarlínan verði forgangsverkefni og hefur Eyjólfur Rafnsson, fyrrverandi forstjóri Mannvits, verið ráðinn verkefnisstjóri Borgarlínunnar.

Hraðvagnar eða léttlestir

Tvenns konar kerfi hafa jafnan verið skoðuð, hraðvagnar eða léttlestakerfi, og greindi borgarstjóri frá því að misjafnt sé hvernig borgir hafa valið á milli þessara leiða. Hraðvagnakerfi sé ódýrara og sveigjanlegra en margar borgir velji þó heldur léttlestakerfi þar sem ósveigjanleikinn getur haft ákveðna kosti.

Til dæmist geti fjárfestar frekar treyst því að lína sé komin til að vera þegar um er að ræða léttlestir en algengt er að aukning verði á uppbyggingu og fjárfestingum í nágrenni við lestarstöðvar, fasteignaverð hækki og jákvæð áhrif séu á byggðaþróun.

Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri.
Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri. mbl.is/Ómar Óskarsson

Segir borgarstjóri miklar líkur á að hraðvagnakerfi eigi að duga á höfuðborgarsvæðinu á næstu árum sem ef til vill væri svo hægt að uppfæra. Þá sé nærtækast að horfa til Hvassahrauns hvað varðar tengingu höfuðborgarsvæðisins við flugsamgöngur.

Loks segir borgastjóri þörf á að eiga viðræður við sveitarfélögin og að komast þurfi að pólitísku samkomulagi um val á leiðum og fjármögnun verkefnisins. Telur hann rétt að um málið verði öflug og opin umræða enda um stórt og kostnaðarsamt verkefni að ræða.

Betra að bæta Strætó

Kjartan Magnússon, borgafulltrúi Sjálfstæðisflokksins, kvaddi sér hljóðs um málið en hann segir umræðuna um einhvers konar lestarkerfi sé ekki ný af nálinni en yfirleitt gufi slíkar hugmyndir upp þegar kostnaðurinn við slíkt kemur í ljós. Fjármunum sé ef til vill betur varið í að bæta Strætókerfið sem þegar er til staðar heldur en að ráðast í kostnaðarsamt verkefni þegar notkun á almenningssamgöngum er svo lítil sem raun ber vitni á höfuðborgarsvæðinu.

Hvað varðar heimsókn borgarstjóra til borganna þriggja telur Kjartan að eðlilegra hefði verið að ferðast til annarra borga og skoða samgöngukerfi í borgum sem eru á stærð við höfuðborgarsvæðið til að fá raunhæfan samanburð.

Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins.
Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Ómar Óskarsson


Þá segir Kjartan að víða hafi fjárfestingarkostnaður farið langt fram úr áætlunum og rekstrarkostnaður einnig. Þá hafi uppbygging sporvagnakerfa víða verið mjög umdeild erlendis vegna kostnaðar sem fór langt fram úr áætlunum.

Í andsvari sínu við orðum Kjartans benti borgarstjóri á skýrslu um kostnaðinn og þótti borgarfulltrúi ekki fara leynt með neikvæðni sína í garð borgarlínunnar.

Ásættanleg fjármögnunarleið verði valin

Þá lagði Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir, borgarfulltrúi, fram eftirfarandi bókun fyrir hönd Framsóknar og flugvallarvina:

Þær hugmyndir um borgarlínu sem kynntar hafa verið eru mjög áhugaverðar og eru Framsókn og flugvallarvinir á því að þetta sé eitt af þeim verkefnum sem verða framkvæmd á næsta kjörtímabili, að öllu óbreyttu.  Áskorun sú sem í ákvarðanatökunni felst er að velja ásættanlega fjármögnunarleið þannig að  rekstrar- og fjárfestingaraáhættu borarinnar sé haldið í lágmarki, en á sama tíma þá sé haldið í trúverðugleika verkefnisins, uppbyggingu þess og eftirfylgni í hvívetna.

Lýsti Sveinbjörg Birna jafnframt yfir ánægju með að fá kynningarefni um hugmyndina í hendur og þakkar borgarstjóra fyrir að fara yfir þau ágreiningsmál sem uppi verða um borgarlínuna.

Ráðhús Reykjavíkur.
Ráðhús Reykjavíkur. mbl.is/Júlíus Sigurjónsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert