Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, segir helstu vonbrigðin við breytingar á almannatryggingakerfinu vera þau að Öryrkjabandalag Íslands (ÖBÍ) hafi dregið sig út úr endurskoðun á lögunum á lokametrunum. Því fái öryrkjar ekki þá 3-4 milljarða króna kerfisbreytingu sem unnið hafi verið að í almannatrygginganefndinni.
Þetta segir Eygló í færslu á Facebook-síðu sinni í dag. „Það hefði verið afar ánægjulegt ef það hefði verið hægt að klára þetta allt í einni aðgerð en fyrir þessu mun ég berjast,“ skrifar hún. „Alveg eins og ég barðist fyrir bættu húsnæðiskerfi, breyttu lífeyriskerfi aldraðra og auknum fjármunum í fæðingarorlofið í þágu heimilanna.“
Frétt mbl.is: Hækka framfærslu öryrkja og aldraðra
Eins og mbl.is greindi frá í gær leggur ríkisstjórnin til það sem hún kallar mikla hækkun á bótum almannatrygginga næstu tvö árin. Einstæðir eldri borgarar fái 300.000 kr. á mánuði og öryrkjar sömuleiðis. Kostnaðurinn við breytingarnar er sagður nema 4,5 milljörðum króna til viðbótar við þann sem hlýst af nýju frumvarpi.
Breytingarnar eru sagðar eiga að leiða til mikillar hækkunar bóta almannatrygginga á næstu tveimur árum. Í tilkynningu frá ríkisstjórninni í gær sagði að ríkisstjórnin telji „í ljósi ábyrgrar efnahagsstjórnunar og þess mikla árangurs sem náðst hefur á kjörtímabilinu í ríkisfjármálum, að unnt sé að stíga veigamikil skref til bættra kjara aldraðra og öryrkja.“ Það byggist á sterkri stöðu þjóðarbúsins og jákvæðum framtíðarhorfum.
Í færslu sinni á Facebook í dag sagði Eygló um verulega aukningu inn í almannatryggingar að ræða. „10,8 milljarðar sem eru 10 þúsund og 800 milljónir. Stærsti hluti þeirra rennur inn í kerfið um næstu áramót.“
Frétt mbl.is: Tvö atriði standa upp úr