Tvö atriði standa upp úr

Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins.
Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, segir að tvö atriði standi upp úr eftir að frumvarp um breytingu á lögum um almannatryggingar var lagt fram.

Frétt mbl.is: Hækka framfærslu öryrkja og aldraðra

„Í kjölfar framlagningar frumvarpsins hafa borist umsagnir og við höfum farið yfir stöðuna og metum það svo að tvö atriði standi upp úr. Annað er að það ber að tryggja 300 þúsund króna viðmiðið sem lágmark og við leggjum til við þingið að því verði náð 1. janúar 2018, en strax verði miðað við 280 þúsund um næstu áramót,” segir Bjarni.

„Hitt atriðið, sem mjög hefur verið í umræðunni er það sem snýr að frítekjumarki. Með breytingunni nú er það skref stigið, að tryggja frítekjumark af tekjum eldri borgara, meðal annars af bótum almannatrygginga, upp að 25 þúsund krónur.”

Bjarni Benediktsson segir frumvarpið sameina marga bótaflokka úr því kerfi sem nú gildir. „Þar var um að ræða grunnlífeyri, tekjutryggingu, framfærsluuppbót og þessir bótaflokkar voru allir með ólíkar skerðingarreglur gagnvart tekjum. Frumvarpið sem nú er til meðferðar tekur alla þessa bótaflokka og sameinar í einn. Hins vegar gerði frumvarpið ekki ráð fyrir neinum frítekjum  vegna þessa. Nú erum við að bæta úr því.”

mbl.is

Bloggað um fréttina