„Kom aldrei til greina að gera lag“

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands.
Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Friðjón R. Friðjónsson, einn fyrrverandi kosningastjóra Guðna Th. Jóhannessonar í framboði hans til forseta Íslands, segist hafa verið sannfærður lengi um að Guðni myndi sigra í kosningunum. 

Kom þetta fram í samtali Andra Freys Viðarssonar við Friðjón í útvarpsþættinum „Talandi um það“ á Rás 2 fyrr í dag.

„Við vorum með svo gott forskot svo lengi, að ég var búinn að vera sannfærður um að þetta væri komið, og klárt, svo miklu lengur en í öðrum slögum sem ég hef tekið þátt í,“ sagði Friðjón, en hann hefur áður aðstoðað Bjarna Benediktsson við formannskjör hans í Sjálfstæðisflokknum.

Friðjón aðstoðaði Guðna í framboði hans til forseta.
Friðjón aðstoðaði Guðna í framboði hans til forseta.

Á leið á móti sitjandi forseta

„Það sem gerist er að þetta Wintris-mál kemur upp þarna annan eða þriðja apríl, og þar er Guðni í stúdíói og verður þar með þjóðþekktur.“

Þar með hafi björninn þó síður en svo verið unninn.

„Þegar Guðni tilkynnir um framboð 5. maí, þá erum við á leiðinni í kosningabaráttu á móti sitjandi forseta, þegar Guðni var búinn að segja að sitjandi forseti vinni alltaf.

Við vorum búin að gera skoðanakönnun þar sem við vorum þó nokkuð undir Ólafi, en ekki svo langt að við gætum ekki náð því.“

Guðni var settur inn í embætti forseta Íslands þann 1. …
Guðni var settur inn í embætti forseta Íslands þann 1. ágúst. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

„Svo bara gerast hlutirnir“

Útlit hafi þá verið fyrir að leiðin myndi liggja upp brekkuna.

„Svo bara gerast hlutirnir. Davíð Oddsson tilkynnir um framboð þremur dögum á eftir Guðna.“

Andri Freyr spurði þá Friðjón hver viðbrögð hans hefðu verið við því.

„Það voru blendnar tilfinningar, alla vega hvað mig varðar, því ég er sjálfstæðismaður og hef alltaf borið mjög mikla virðingu fyrir Davíð Oddssyni sem formanni flokksins, og óneitanlega einum mesta leiðtoga Sjálfstæðisflokksins í sögu hans.

En á móti kemur að ég var byrjaður að vinna í framboði með vini mínum,“ sagði Friðjón og bætti við að konur þeirra Guðna væru mjög góðar vinkonur og þeir þannig orðið ágætisvinir.

„Og ef vinur manns vill gera eitthvað, og maður telur að það séu líkur á að hann geti náð árangri, þá stendur maður með því.“

Guðni við innsetninguna í sal Alþingis.
Guðni við innsetninguna í sal Alþingis. mbl.is/Freyja Gylfa

„Kom okkur að óvörum“

Andri Freyr spurði Friðjón meðal annars hvort komið hefði til skoðunar að gera lag til stuðnings Guðna, líkt og stuðningsmenn Þóru Arnórsdóttur gerðu fyrir framboð hennar árið 2012.

„Það kom aldrei til greina,“ sagði Friðjón og benti á að hann hefði líka komið að skipulagningu hennar framboðs.

„Það lag kom okkur svolítið að óvörum. Og við vorum alveg harðákveðin í því, hjá Guðna, að svona lag ætti ekki að koma okkur að óvörum.“

mbl.is