Mál gegn Hannesi Smárasyni fellt niður

Hannes Smárason í héraðsdómi.
Hannes Smárason í héraðsdómi.

Hæstiréttur hefur fellt niður mál gegn Hannesi Smárasyni sem oft hefur verið nefnt Sterling-málið. Málið er fellt niður vegna gífurlegra tafa hjá saksóknara. Hannes hafði verið sýknaður í héraðsdómi, en málinu var áfrýjað af ríkissaksóknara og flutt í þessari viku. Hannes hafði verið ákærður fyrir fjárdrátt, en til vara umboðssvik vegna millifærslu upp á tæplega þrjá milljarða af bankareikningi FL Group á eignarhaldsfélagið Fons árið 2005.

Ellefu ár frá meintu broti og 7 ár frá því rannsókn hófst

Í dómi málsins segir að meint brot hafi verið framið 25. apríl 2005. Rannsóknin hafi átt rót sína að rekja til fundar saksóknara efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra og skattrannsóknarstjóra ríkisins 29. janúar 2009. Hófst rannsókn í kjölfarið. Lögregluskýrsla var aftur á móti fyrst tekin af ákærða 21. janúar 2011, tæplega tveimur árum eftir að rannsókn hófst.

 „Engin skýring er fram komin á því hvers vegna ákæra var ekki gefin út fyrr en 28. október 2013, rúmum fjórum árum eftir upphaf rannsóknar. Mál þetta dróst jafnframt úr hömlu hjá ákæruvaldinu eftir að héraðsdómur var upp kveðinn 18. febrúar 2015 og dómsgerðir afhentar því og þar til málsgögnum var skilað til Hæstaréttar 9. ágúst 2016. Ákæruvaldið hefur ekki veitt haldbærar skýringar á því hvers vegna það tók svo langan tíma að útbúa málsgögn og skila þeim til Hæstaréttar,“ segir í dómnum.

Vanræksla ákæruvaldsins

Rifjar Hæstiréttur upp hversu langan tíma málið hafi tekið. „Þegar málsgögnin loks bárust réttinum voru liðin meira en ellefu ár frá ætluðu broti, nærri átta ár frá upphafi rannsóknar og rúmir sautján mánuðir frá því að ríkissaksóknari gaf út áfrýjunarstefnu til að fá hnekkt héraðsdómi um sýknu ákærða.“

Þá hafi ákæruvaldið þurft frest, til að skila greinargerð til Hæstaréttar, um þrjár vikur. Að þeim tíma liðnum hafi engin greinargerð borist en samt hafi ekki verið óskað eftir lengri fresti. „Því fer fjarri að þessi vanræksla ákæruvaldsins um skil á greinargerð hafi verið réttlætt. Samkvæmt þessu verður fallist á kröfu ákærða um að málið verði fellt niður fyrir Hæstarétti,“ segir í dóminum.

Allur áfrýjunarkostnaður er greiddur af ríkissjóði auk málsvarnarlauna verjanda Hannesar upp á 620 þúsund krónur.

Snýst um viðskipti með Sterling-flugfélagið

Málið snerist um viðskipti FL Group með flug­fé­lagið Sterl­ing. Árið 2005 keypti FL Group flug­fé­lagið af Fons fyr­ir 15 millj­arða, en þá hafði verðmiði fé­lags­ins hækkað um 11 millj­arða á sjö mánuðum. Í kring­um viðskipt­in fór þriggja millj­arða milli­færsla af reikn­ing­um FL Group sem aldrei hef­ur komið skýr­ing á hvert fór.

Í til­kynn­ingu sem Ragn­hild­ur Geirs­dótt­ir, sem var for­stjóri FL Group frá því í júní 2005 til októ­ber sama ár, sendi frá sér í kjöl­far skýrslu rann­sókna­nefnd­ar Alþing­is árið 2010, seg­ir hún að ástæða upp­sagn­ar sinn­ar hafi meðal ann­ars verið ósætti við Hann­es Smára­son vegna um­ræddr­ar milli­færslu. Auk henn­ar hættu sex stjórn­ar­menn í fé­lag­inu á þess­um tíma.

Sagði Ragn­hild­ur að um það leyti sem hún tók við starfi for­stjóra hafi hún fengið vitn­eskju af því að Hann­es hafi í apríl sama ár látið milli­færa tæp­lega 3 millj­arða af reikn­ing­um fé­lags­ins til Kaupþings í Lúx­em­borg. Eng­ar skýr­ing­ar, lána­skjöl eða önn­ur gögn voru til um málið og milli­færsl­an var án vitn­eskju annarra stjórn­ar­manna fé­lags­ins.

Við aðalmeðferð málsins var fátt um svör hjá Hannesi um millifærsluna og voru þau nær und­an­tekn­ing­ar­laust á þann veg að hann kannaðist ekki við skjöl, vissi ekk­ert hvernig þau væru til­kom­in og myndi ekki eft­ir tölvu­póst­um sem und­ir hann voru born­ir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka