Níðingsverk framið á Austurlandi

Ljósmynd/Hjörtur Magnason

Tvær álftir fundust skotnar skammt frá Borgarfjarðarvegi í Hjaltastaðaþinghá á föstudag. Báðar þurftu að þola mjög langan og þjáningarfullan dauðdaga og segir héraðsdýralæknir að um afar níðingslegan verknað sé að ræða.

Snjólaug Guðmundsdóttir hjá lögreglunni á Egilsstöðum, sem er með málið til rannsóknar, segir að þar sem álftin sé friðuð dýrategund hafi héraðsdýralæknir verið kallaður út til að aflífa álftirnar, þar sem í fyrstu var talið að keyrt hefði verið á þær. Í ljós hafi þá komið að báðar höfðu verið skotnar.

Í samtali við mbl.is segir Snjólaug að álftirnar, sem fundust í landi bæjarins Eylands, hafi verið par, karl og kerling.

„Þá er hægt að velta ýmsu fyrir sér, því maður hefur heyrt að ungarnir séu góðir og því veiddir. Voru ungar með parinu og þeir teknir? Það veit maður ekki.“

Kvalafullur dauðdagi beggja fugla

Hjörtur Magnason héraðsdýralæknir á Egilsstöðum segist í samtali við mbl.is engin fordæmi þessa vita í umdæminu.

Í skýrslu Hjartar kemur fram að engar vísbendingar hafi verið um veikindi í fuglunum.

„Önnur álftin hafði verið skotin með riffli aftanvert í endaþarminn, kúlan splundrast í kviðarholi, valdið banvænum breytingum í meltingarkerfi og lífhimnubólgu með löngum kvalarfullum dauðdaga,“ segir í skýrslunni.

Því næst segir Hjörtur að í kviðarholi hennar hafi fundist leifar og brot af koparmantlaðri sprengikúlu, sem lögregla fékk afhent.

„Hin álftin hafði verið skotin ca 45º að aftan í miðjan vinstri væng, kúlan rist gegnum yfirborð brjósthols um báða brjóstvöðva og út hægra megin að framan. Ekki var sýnilega mikil blæðing úr þessum sárum og hefur þessi álft því einnig mátt þola langan og þjáningarfullan dauðdaga.“

Ljósmynd/Hjörtur Magnason

„Engan veginn nægilega öflugt“

Snjólaug segir að líklega hafi álftirnar verið skotnar með 22 kalíbera kúlu.

„Ef svo er þá er þetta náttúrulega engan veginn nægilega öflugt vopn til að drepa svona stóra fugla,“ segir Snjólaug. „Það er auðvitað ömurlegt, ef fólk er á annað borð að skjóta þessi dýr, að klára þetta ekki. Þetta er afar níðingslegt að skilja svona eftir sig.“

Lögregla biður þá, sem telja sig geta veitt upplýsingar um málið, að hafa samband í síma 444-0640.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert