Katrín verði ráðherra innan skamms

Össur Skarphéðinsson, fyrrverandi utanríkisráðherra.
Össur Skarphéðinsson, fyrrverandi utanríkisráðherra. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Katrín er farsæll stjórnmálamaður. Hún þurfti ekki einu sinni að hafa fyrir því að Viðreisn sæti uppi með svartapéturinn þegar upp úr slitnaði. Benedikt lá svo á að komast út úr faðmlaginu við vinstri vænginn að hann þreif með sér svartapéturinn óbeðinn.“

Þetta segir Össur Skarphéðinsson, fyrrverandi utanríkisráðherra, á Facebook-síðu sinni þar sem hann tjáir sig um stöðuna varðandi myndun mögulegrar ríkisstjórnar. Vísar hann þar til tilraunar til þess að setja saman fimm flokka ríkisstjórn frá miðju til vinstri undir forystu Katrínar Jakobsdóttur, formanns Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs.

Össur segir Viðreisn undir forystu Benedikts Jóhannessonar hafa tekist að glutra niður merkilega sterkri stöðu sem flokkurinn hafi byggt upp með bandalagi sínu við Bjarta framtíð. Þar með hafi hugsanlega orðið að engu merkilegasta tilraunin sem gerð hafi verið í íslenskum stjórnmálum frá aldamótum. Það er til þess að skapa nýja miðju í pólitíkinni.

Þótt dapurlegt sé að ekki hafi tekist að mynda fimm flokka ríkisstjórn segir Össur að tími Katrínar eigi eftir að koma síðar. Hún hafi látið reyna á fimm flokka viðræðurnar eins og af henni hefði verið krafist sem hefði verið nauðsynlegt fyrir hana og VG upp á eftirleikinn að gera. Spáir hann því að Katrín eigi eftir að verða ráðherra innan skamms.

mbl.is

Bloggað um fréttina