Deilt um skyr á flugvöllum

Skyrgámur tók að sér að koma bóluefninu til skila og …
Skyrgámur tók að sér að koma bóluefninu til skila og þurfti því að ferðast mikið á árinu. Teikning/Brian Pilkington

Það er í mörg horn að líta hjá jólasveinunum um þessar mundir. Skyrgámur gaf krökkum á Íslandi í skóinn í nótt en hann hefur upp á síðkastið verið á ferðalagi á vegum UNICEF. Fyrir síðustu jól keyptu Íslendingar um 2.000.000 skammta af bóluefni gegn mislingum og mænusótt á vefsíðunni sannargjafir.is sem UNICEF á Íslandi heldur úti. Skyrgámur tók að sér að koma bóluefninu til skila og þurfti því að ferðast mikið á árinu. 

Ljósmynd/UNICEF

Er skyr vökvi eða ostur?

Skyldi Skyrgámur hafa haft skyr með sér í ferðalagið?

Ég ætlaði að taka með mér skyr til að gefa krökkum sem ég hitti. En það var allt tekið af mér á Keflavíkurflugvelli. Mér sýndist öryggisverðirnir vera lengi að velta fyrir sér hvort skyr væri vökvi eða kannski ostur. Þeir ákváðu á endanum að það væri vissara að taka það af mér, það væri öruggara.“

Aðspurður segist hann ekki hafa gefið sér mikinn tíma til að skoða sig um, enda nóg að gera við að koma bólusetningunum til skila. Hann var þó alveg sérstaklega hrifinn af Líbanon.

Ljósmynd/UNICEF

Breytir kannski nafninu í „Jógúrt-gámur“

„Þar er skyr-menning afar langt komin. Þau gera afbragðsskyr sem kallað er „jógúrt“. Jógúrtin þeirra er mjúk og feit og sæt, allt í senn. Það kæmi mér ekki á óvart ef ég breytti nafninu mínu í „Jógúrt-gámur“. Ég ætti nú eiginlega að gera það, ég gæti gert það til að vekja athygli á þessum óskiljanlegu reglum sem mér sýnist flugfélögin setja um skyr í flugvélum.“

Í Líbanon vinnur UNICEF mikið með börnum sem hafa þurft að flýja stríðið í Sýrlandi og stóð nýverið fyrir stóru bólusetningarátaki. UNICEF hefur einnig veitt börnum á flótta sálræna aðstoð og komið þeim í skóla í Líbanon.

Ljósmynd/UNICEF

Íslensku jólasveinarnir eru þekktir fyrir stríðni og pretti. Þeir hafa hins vegar snúið við blaðinu og hjálpa nú UNICEF við að koma hinum ýmsu hjálpargögnum til barna í neyð. Fólk getur keypt gjöf sem bjargar lífi barna á vefsíðunni sannargjafir.is

Til að leggja lóð sín á vogarskálarnar birtir mbl.is myndband með jólasveini dagsins á hverjum degi fram að jólum og fylgist með ferðum sveinanna um heiminn.

UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, berst fyrir réttindum allra barna og er í einstakri stöðu til að þrýsta á um breytingar á heimsvísu.

Ljósmynd/UNICEF
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert