Tannlækningar gjaldfrjálsar fyrir 3-17 ára börn

mbl.is/Eggert

Frá 1. janúar 2017 er kostnaður vegna tannlækninga barna á aldrinum 3 ára til og með 17 ára greiddur að fullu af Sjúkratryggingum Íslands, að frátöldu 2.500 kr. árlegu komugjaldi.

Vakin er athygli á því að 4 og 5 ára börn eiga nú einnig rétt á gjaldfrjálsum tannlækninum. Þetta kemur fram í grein sem Hólmfríður Gunnarsdóttir tannlæknir birtir vef Embættis landlæknis.

Þar segir ennfremur, að greiðsluþátttaka sjúkratrygginga sé háð því að foreldrar skrái barn/börn sín hjá heimilistannlækni og því séu foreldrar hvattir til að skrá barn/börn sín í Réttindagátt Sjúkratrygginga Íslands. Tannlæknar geti einnig séð um skráninguna, sé þess óskað.

Mælt er með að skrá barn hjá heimilistannlækni þegar það nær eins árs aldri. Lista yfir heimilistannlækna má nálgast á vef Sjúkratrygginga Íslands.

Samningurinn tekur einnig til barna í bráðavanda, sem eru yngri en þriggja ára og búa við erfiðar félagslegar aðstæður. Tilvísun þarf að berast tannlækni frá heilsugæslu, barnaverndar- eða félagsmálayfirvöldum vegna þessara barna og skilyrði að Sjúkratryggingar Íslands samþykki umsókn frá tannlækni á grundvelli tilvísunar, að því er segir í frétt landlæknisembættisins

Þann 1. janúar 2018 verða tannlækningar allra barna yngri en 18 ára greiddar að fullu af Sjúkratryggingum Íslands, að frátöldu 2.500 kr. árlegu komugjaldi.

Sjá nánar á vef Sjúkratrygginga Íslands.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert