Lyflækningasjúklingar lagðir inn á barnadeild

Sjúkrahúsið á Akureyri. Mikið álag hefur verið í haust á …
Sjúkrahúsið á Akureyri. Mikið álag hefur verið í haust á lyflækninga- og skurðlækningadeild spítalans. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Lyflækningadeildin á Sjúkrahúsinu á Akureyri er yfirfull með reglulegu millibili og eru sjúklingar þá lagðir inn á skurðdeild eða jafnvel barnadeild spítalans, að sögn Sigurðar E. Sigurðssonar, framkvæmdastjóra lækninga á Sjúkrahúsinu á Akureyri (SAk). Algjört neyðarúrræði sé að sinna sjúklingum á göngum spítalans.

„Það hafa komið tímabil í haust þar sem það hefur verið þungt og mikið álag á spítalanum, sérstaklega á lyflækninga- og skurðlækningadeildinni,“ segir Sigurður. „Þá höfum við þurft að sýna ákveðið hugmyndaflug til að koma öllum fyrir og veita þá þjónustu sem sjúklingar þurfa á að halda.“

Nýjustu tölur frá lyflækningadeild SAk benda til 90% nýtingar á rúmum, sem Sigurður segir fela í sér að deildin sé yfirfull með reglulegu millibili. „Það þýðir að þá þarf að leita inn á aðrar deildir til að geta fundið rúm fyrir sjúklinga.

Það hefur komið fyrir að lyflækningasjúklingar hafa lagst inn á skurðlækningadeild eða jafnvel barnadeild, enda reynum við frekar að gera það en að setja sjúklinga á gangana. Það er algjört neyðarúrræði, enda held ég að það séu allir sammála um að ekki eigi að sinna veikum sjúklingum á göngum nema brýna nauðsyn beri til.“

Starfsfólkið geri þó sitt besta til að vinna úr þeim erfiðu aðstæðum sem upp komi. „Það er ótrúlega duglegt að sinna öllum sem til okkar leita og við erum þakklát fyrir það og veitum eins góða þjónustu og við getum,“ segir Sigurður.

mbl.is