„Við getum hvílt okkur seinna“

Mikið mæðir á lögreglu og hjálparsveitum þessa dagana.
Mikið mæðir á lögreglu og hjálparsveitum þessa dagana. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Fjórtán eða fimmtán deildir lögreglu koma að leit og rannsókn á máli Birnu Brjánsdóttur sem nú hefur verið saknað í viku. Ævar Pálmi Pálmason, lögreglufulltrúi hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, segir lögregluaðgerðina þá stærstu frá aldamótum. Unnið er að lausn málsins allan sólarhringinn.

mbl.is ræddi við Ævar í gær.

Aðspurður sagði Ævar að starfsfólkið hefði lítið hvílst síðustu daga. „Fólk er það einbeitt og ákveðið í að finna Birnu og upplýsa þetta mál að það er eiginlega erfitt að fá fólk til að fara heim að hvíla sig. Það er unnið myrkranna á milli. Eins og okkar fólk segir: „Við getum hvílt okkur seinna.“,“ segir Ævar Pálmi. „Við unum okkur ekki hvíldar,“ bætir hann við.

Kynferðisbrotadeildin á bakvaktina 

Hann segir að svo til öll starfsemi lögreglu snúist um hvarf Birnu. „Ég held að það sé ekki hægt að segja að það sé einhver deild sem komi ekki að þessu,“ segir Ævar og bætir við: „Ég get nefnt sem dæmi að kynferðisbrotadeildin hefur sinnt bakvöktum fyrir okkur um helgina, þar sem mikið álag er á fólki á öðrum vígstöðvum,“ segir Ævar.

Hann segir að eftir sem áður hvíli hitinn og þunginn á rannsóknardeild skipulagðrar brotastarfsemi sem fer með rannsókn málsins.

Margir fletir á aðkomu fjölmiðla 

Fá mál ef nokkur hafa verið eins mikið í brennidepli fjölmiðla hér á landi. Spurður hvort það hafi auðveldað eða torveldað rannsókn málsins segir Ævar erfitt að segja til um það. „Það eru margir snertifletir á því. Við þurfum á aðstoð almennings að halda og fjölmiðlar geta verið tenging þar á milli,“ segir Ævar.

Hann segir að hið mikla magn upplýsinga sem berist lögreglu sé til komið vegna aðkomu fjölmiðla. „Aftur á móti er mikil krafa á lögreglu um upplýsingar á móti. Það getur verið erfitt að verða við því vegna þess að það tekur tíma að fara yfir öll þau gögn og ábendingar sem berast. Eins þurfum við að meta það hvað má gefa upp vegna rannsóknarhagsmuna,“ segir Ævar.

Leitarfólk safnast saman í Hafnarfirði í morgun.
Leitarfólk safnast saman í Hafnarfirði í morgun. mbl.is/Eggert
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert