Flúði hátt leiguverð og fór í sveitina

Soffía Björg Óðinsdóttir tónlistarkona.
Soffía Björg Óðinsdóttir tónlistarkona. mbl.is/Árni Sæberg

Soffía Björg Óðinsdóttir gafst upp á rótinu í Reykjavík og flutti aftur á æskuheimilið í Einarsnesi í Borgarfirði fyrir tveimur árum. Hún vinnur þar að tónlist sinni en breiðskífa er væntanleg frá henni í vor.

„Náttúran gefur mér ró og hún gefur mér aukinn kraft. Ég er rólynd manneskja. Þegar ég var í Reykjavík að vinna var margt í gangi og margt sem tosaði í mann en mig vantaði þessa tengingu. Athygli mín var mikið á víð og dreif. Óstöðugleikinn var mikill og leigan ótrygg; ég man ekki hvað ég bjó á mörgum stöðum. Maður fékk ekki að halda heimilinu sínu. Það er afskaplega leiðinlegt og fyrir utan það var leigan há. Ég gafst upp á því öllu og ákvað að flytja heim,“ segir Soffía Björg sem hugsaði með sér hvort þetta væri ósigur og þýddi að hún væri búin að gefast upp.

„En svo þegar ég var búin að vera hérna í einhvern tíma velti ég fyrir mér hvað ég hefði verið að pæla. Þetta er besti staðurinn til að vera á,“ segir Soffía Björg sem er búin að koma sér vel fyrir í Einarsnesi.


Söngelsk fjölskylda

„Ég er með vinnu- og æfingaaðstöðu inni í sólstofu. Þetta er sólskáli sem var smíðaður fyrir mömmu mína og allar hennar plöntur og jurtir. Svo gerðu mamma og pabbi garðskála úti svo hún er flutt með sína starfsemi þangað. Ég er með alla magnarana mína þarna inni, bækurnar mínar og tölvuna,“ segir hún en bræður hennar Þórarinn og Guðmundur eru búnir að stofna hljómsveit og leggja undir sig bílskúrinn fyrir æfingar. Pabbi hennar er líka farinn að semja tónlist og átti lag sem komst í úrslit jólalagakeppni Rásar 2 fyrir síðustu jól, sem Kristín Birna systir hennar söng.

„Karítas yngsta systir mín er plötusnúður, hún spilar á öllum knæpum bæjarins og gengur vel. Hún er líka með fantagóða rödd. Sigríður systir er myndlistarkona en hún er líka með rosalega fína rödd,“ segir hún en það ætti því ekki að koma á óvart að hún hafi fengið systur sínar til liðs við sig á einum tónleikum. Systkinin héldu enn fremur jólatónleika saman í Borgarneskirkju árið 2015 til að gefa eitthvað til bæjarfélagsins og sveitarinnar og „til að lyfta upp stemningunni í skammdeginu“.


Soffía Björg er í ítarlegu viðtali við Sunnudagsblað Morgunblaðsins um helgina þar sem hún ræðir m.a. tónlistarferilinn, hvernig hún komst yfir sviðshræðslu og leiðsögumannsstarfið á Langjökli.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert