Lægstu launin hækka

Samningur við FT gildir til 31. mars 2018.
Samningur við FT gildir til 31. mars 2018. mbl.is/Ómar Óskarsson

Félagsmenn í Félagi kennara og stjórnenda í tónlistarskólum (FT) fá um 17% launahækkun og tvær eingreiðslur upp á samtals 350 þúsund krónur, samkvæmt miðlunartillögu ríkissáttasemjara í deilu FT og Sambands íslenskra sveitarfélaga. Miðlunartillagan var samþykkt í síðustu viku.

Samningur gildir til 31. mars 2018. Samningur við FT hafði verið laus í um 15 mánuði. 20 árangurslausir fundir voru í kjaradeilunni áður en miðlunartillagan var lögð fram.

Í samningnum bættust einnig við launaflokkar fyrir stjórnendur og þá sem eru með fleiri próf og reynslu á sviði stjórnunar. Einnig var lægsta launaþrepið fellt út sem nýir kennarar féllu undir. „Við vonum að það kalli á nýliðun félagsmanna,“ segir Dagrún Hjartardóttir, starf­andi formaður Fé­lags kenn­ara og stjórn­enda í tón­list­ar­skól­um, um kjarasamninginn. 

Hún segir vissulega gott að samningar hafi náðst hins vegar bendir hún á að félagsmenn hafi viljað nálgast betur kollega sína. Hún bindur vonir við að farið verði í frekari kerfisbreytingar á samningnum sem er kominn til ára sinna. Með miðlunartillögunni var samþykkt bókum sem snýst um að farið verði í kerfisbreytingar á samningnum. Þessar breytingar eiga að taka gildi áður kjarasamningurinn rennur út.  

Hér er hægt að skoða miðlunartillöguna nánar. 

mbl.is