Skólahundurinn Moli vinsæll hjá nemendum

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri ásamt Margréti Theodórsdóttur skólastjóra, Mola og …
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri ásamt Margréti Theodórsdóttur skólastjóra, Mola og Júlíu Guðmundsdóttur Gaehwiller, nemanda Tjarnaskóla. Moli er mikill ljúflingur og hefur góð áhrif á skólastarfið. Ljósmynd/Bjarni Brynjólfsson

Í Tjarnarskóla er að finna nokkuð óvenjulegan skólaliða sem er bæði loðinn og ferfættur. Skólahundurinn Moli er átta ára cavalier sem nýtur mikilla vinsælda hjá bæði nemendum og starfsfólki. Moli gegnir m.a. hlutverki fyrirsætu í textílmennt og þá gefst ekki síður vel að lesa fyrir hann.

Margrét Theodórsdóttir, skólastjóri Tjarnarskóla, segir Mola nú hafa tekið þátt í skólastarfinu í tæpt ár. „Ritarinn okkar, Sigrún Edda Theodórsdóttir, tók Mola að sér upp úr páskunum í fyrra og datt í hug að kanna hvort það væri ekki í lagi að leyfa honum að vera með sér í vinnunni,“ segir hún.

„Við könnuðum það meðal nemenda og foreldra hvort einhver væri með ofnæmi eða annað slíkt og úr varð að hann fékk að vera hér og fylgir eiganda sínum á hverjum degi, nema eitthvað mjög sérstakt sé,“ segir Margrét.

Nemendur njóta þess að fá að klappa Mola og spjalla …
Nemendur njóta þess að fá að klappa Mola og spjalla við hann. Sú sem þarna klappar Mola á stigaskörinni heitir Guðrún Ýr Guðmundsdóttir. Ljósmynd/Margrét Theodórsdóttir

Hún segir einn hafa fundið dálítið fyrir Mola á tímabili og tekið hafi verið tillit til þess. „En síðan hefur þetta gengið algjörlega snurðulaust og okkur finnst þetta alveg dásamlegt.“

Hefur góð áhrif á skólastarfið

Margrét segir kennara hafa tekið eftir að Moli hafi góð áhrif á skólastarfið. „Það eru sumir sem koma hingað og njóta þess vera með honum, klappa honum eða tala við hann. Þetta eru voða falleg samskipti.“

Moli þykir ljúfur hundur og það fer lítið fyrir honum, enda er hann tekinn að eldast. „Yfirleitt þá fylgir hann bara eigenda sínum hvert fótmál, en það eru þó viss bannsvæði. Hann fær t.d. ekki að fara inn í eldhús eða á kennarastofuna,“ segir hún. Moli á sér líka sína staði og eyðir til að mynda löngum í stundum úti í horni í slökunarstellingu.

„Hann er ofsalega ljúfur og þægilegur og það er alveg undantekning ef hann heyrist gelta,“ segir Margrét.

Moli er meðal annars notaður við fyrirsætustörf í textílmennt. Hér …
Moli er meðal annars notaður við fyrirsætustörf í textílmennt. Hér skartar hann forláta prjónahúfu. Ljósmynd/Elvar Árni Bjarnason

Er vinur í raun ef nemanda líður illa

Þá hefur Moli einnig komið nemendum til hjálpar við námið, m.a. með því að vera fyrirsæta í textílmennt við slaufu- og fatagerð og eins er hann góður félagi að lesa fyrir, auk þess að hafa verið viðfangsefni nemendaverkefnis á síðustu önn. þar segir m.a.: „Ef nemanda líður illa er Moli vinur í raun. Nemandi getur fengið að fara út með Mola í göngutúr. Það dreifir huganum hjá þeim sem líður illa og um leið fær Moli ferskt loft.“

Margrét segir að þó að nemendur Tjarnaskóla séu á unglingsaldri þá gefist vel að nota Mola við námið. „Það getur t.d. verið fínt að æfa sig að halda ræðu fyrir hann, eða að æfa framburð í ensku.  Síðan höfum við líka tekið eftir því að ef einhver er leiður þá fer hann til hans á meðan það er að ganga yfir.“

Moli hefur ekki síður fengið góðar viðtökur hjá gestum og gerði Dagur B. Eggertsson borgarstjóri Mola t.d. að viðfangsefni Facebook-færslu sinnar um heimsókn í skólann. „Við spyrjum alltaf ef það eru einhverjir nýir að koma eða gestir, hvort þeim finnist ónotalegt að hitta hund en viðbrögðin eru alltaf að þetta sé æðislegt,“ segir Margrét.

Moli fylgir yfirleitt eiganda sínum hvert fótmál, en kann því …
Moli fylgir yfirleitt eiganda sínum hvert fótmál, en kann því þó líka vel við að liggja úti í horni í slökunarstellingu. Ljósmynd/Elvar Árni Bjarnason
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert