Vill láta loka United Silicon

United Silicon í Reykjanesbæ.
United Silicon í Reykjanesbæ. Ljósmynd/United Silicon

Kolbrún Jóna Pétursdóttir, bæjarfulltrúi í Reykjanesbæ, vill að kísilverkmiðju United Silcon verði lokað. Bæjarstjórnin hefur óskað eftir fundi með Umhverfisstofnun í vikunni og vill Kolbrún að brugðist verði þannig við að „það hætti þessi tilraunastarfsemi USI gagnvart íbúum bæjarins“.

Á Facebook-síðu sinni vísar Kolbrún Jóna í frétt Rúv frá því í hádeginu þar sem dósent við læknadeild Háskóla Íslands segir fulla ástæðu fyrir íbúa Reykjanesbæjar að hafa áhyggjur af arsenikmengun frá verksmiðjunni.

„Það er komið gott í fréttum um mengun og ég held að það sé ekki bara ég sem fæ hroll þegar ARSENIK er farið að leka hér yfir okkur í tuttuguföldu magni þess sem áætlað var,“ skrifar Kolbrún Jóna.

„Í mínum huga þarf að loka verksmiðjunni þangað til að starfsmenn hennar hafa náð tökum á ÖLLUM þeim vandræðum sem hafa komið upp.“

Umhverfisstofnun hafnaði beiðni United Silicon um miðjan mars um að fá sex mánaða frest til að bæta úr frávikum. 

 

 

mbl.is

Bloggað um fréttina