„Það eru allir strákarnir frammi spólgraðir í þig“

„Það er eins og sumum finnist þeir hafa meira aðgengi …
„Það er eins og sumum finnist þeir hafa meira aðgengi að manni af því maður er á sviði og opnar sig á vissan hátt og gerir sig berskjaldaðan á meðan maður er að skemmta fólki. Sumum finnst þá eins og þeir hafi leyfi til að snerta mann á óviðeigandi stöðum, t.d. með því að grípa um mjaðmirnar,“ segir Elísabet Ormslev. Ljósmynd/Úr einksafni

„Það er eiginlega algengara frekar en ekki að einhver sé að atast í þér og tjá sig um það hvernig þú lítur út á þeim skemmtunum þar sem áfengi er haft um hönd,“ segir tónlistarkonan Elísabet Ormslev. Hún hefur oft orðið fyrir óviðeigandi snertingum í tengslum við skemmtanahald.

Frásögn tónlistarkonunnar Sölku Sól Eyfeld á Twitter nú um helgina, af því þegar maður kleip hana á rassinn rétt áður en hún steig á svið á árshátíð Icelandair hefur vakið mikla athygli. Það tilvik er hins vegar ekkert einsdæmi.

„Það er eins og sumum finnist þeir hafa meira aðgengi að manni af því  maður er á sviði og opnar sig á vissan hátt og gerir sig berskjaldaðan á meðan maður er að skemmta fólki. Sumum finnst þá eins og þeir hafi leyfi til að snerta mann á óviðeigandi stöðum, t.d. með því að grípa um mjaðmirnar,“ segir Elísabet og bætir við: „Þú ferð ekki til endurskoðanda, sem kannski er sæt kona, og ferð að þukla á henni af því að hún er flott í sínu starfi.“

Greip um brjóstin og kreisti

Tónlistarkonu eru hins vegar ekki einar um að verða fyrir slíku áreiti og kveðst Elísabet einnig þekkja dæmi þessa frá tónlistarmönnum. „Ég veit að bæði karlar og konur í tónlistarbransanum hafa lent í þessu margoft.“

Hún rifjar upp er hún var að syngja niðri í bæ eitt laugardagskvöld á stað þar sem margir voru komnir vel í glas. „Þá kom maður allt í einu aftan að mér og greip um brjóstin á mér og kreisti án nokkurrar viðvörunar, sem betur fer sá líka einn af dyravörðunum þetta og rak manninn út.“

Tónlistarkonan Elísabet Ormslev segir eiginlega algengara frekar en ekki að …
Tónlistarkonan Elísabet Ormslev segir eiginlega algengara frekar en ekki að verið sé að atast í tónlistarfólki og tjá sig um útlit þess þar sem áfengi er haft um hönd. Ljósmynd/Úr einkasafni

Eitt versta tilvikið sem hún hefur lent í átti sér hins vegar stað úti á landi síðasta vetur þegar hún var að skemmta hóteli eina helgi. Föstudagurinn hafði gengið vel og laugardagurinn að flestu leyti líka, fyrir utan einn karl á sextugsaldri sem var búinn að gjóa hana augum allt kvöldið. „Hann var að koma upp að mér og rífa í hljóðnemann, taka í hendurnar á mér og reyna að rífa mig út á dansgólfið á meðan ég var að syngja,“ segir hún. „Hann var rosalega ölvaður, ekki það að mér finnist ölvun afsaka neitt.“

Eitt af þeim skiptum sem mér hefur liðið hvað verst í þessu starfi

Sá sem var að spila með henni var í því að biðja manninn að hætta, en án árangurs. Eftir skemmtunina fór Elísabet inn á herbergi sitt, sem einnig var á hótelinu, og ætlaði að fara að sofa. Hún var hins vegar varla komin í náttfötin þegar maðurinn bankaði á hurðina og sýndi sig ekki líklegan til að hætta.  „Ég ætlaði ekki að opna því að ég vissi að þetta væri hann,“ segir Elísabet. Hún opnaði þó og frammi stóð maðurinn sem vildi ólmur fá hana til að koma fram og fá sér drykk með öðrum. Þegar  hún neitaði sagði hann: „Hvað er þetta, það eru allir strákarnir frammi spólgraðir í þig.“

Elísabet segir manninn hafa gert sig sífellt líklegri til að nálgast sig meira og að hann hafi ekki tekið nei sem svari. Hún sagði því góða nótt og lokaði hurðinni. Það dugði í skamma stund, því maðurinn kom í tvígang aftur næstu tvo tímana, bankaði á hurðina og kallaði til hennar að koma.

Ég var alein úti á landi, vissi ekki hvað ég ætti að gera og þetta var bara verulega óþægilegt,“ segir hún. „Þetta var í pínulitlum bæ og ég var ekki í miklum samskiptum við starfsfólk og þurfti bara að loka og læsa að mér.“

Elísabet segist hafa verið með hnút í maganum vegna áreitisins og hafa átt erfitt með að sofna. „Þetta er eitt af þeim skiptum sem mér hefur liðið hvað verst í þessu starfi.“

mbl.is