IKEA reisir blokk fyrir starfsmenn

Tölvuteikning af fyrirhuguðu fjölbýlishúsi.
Tölvuteikning af fyrirhuguðu fjölbýlishúsi. Teikning/IKEA

Húsgagnaverslunin IKEA stendur nú fyrir byggingu fjölbýlishúss með 36 litlum og hagkvæmum leiguíbúðum í Urriðaholtinu í Garðabæ. Þetta kom fram á málþingi Íbúðalánasjóðs um húsnæðismál á fimmtudaginn. Tilgangurinn er að tryggja starfsfólki fyrirtækisins öruggt og gott húsaskjól á góðu verði. Einnig komi til greina að leigja stúdentum og jafnvel starfsfólki Costco íbúðir í húsinu.

Þórarinn Ævarsson, framkvæmdastjóri IKEA, sagði frá verkefninu á málþingi Íbúðalánasjóðs um byggingu hagkvæmra íbúða sem fram fór á dögunum en haft er eftir honum í tilkynningunni að húsnæðismál starfsfólks sé einnig mál atvinnurekenda. Framtíðarvígvöllur fyrirtækja í framlínurekstri verði hæft starfsfólk. Sá sem nái til sín hæfasta starfsfólkinu verði sigurvegari.

Fjölbýlishúsið sem IKEA ætlar að láta reisa mun standa við Urriðaholtsstræti 10-12. Fasteignafélag tengt fyrirtækinu á og rekur húsið og er gert ráð fyrir að það verði tilbúið á síðari hluta næsta árs. Húsið verður fimm hæðir þar sem fjórar efstu hæðirnar verða með smáíbúðum en sú neðsta verður atvinnuhúsnæði í bland við geymslur fyrir íbúðirnar á efri hæðum. 

Stúdíóíbúðir í fjölbýlishúsinu.
Stúdíóíbúðir í fjölbýlishúsinu. Teikning/IKEA

Enn fremur segir að upphaflega hafi staðið til að byggja hús með mjög ódýrum íbúðum en það hafi ekki tekist af ýmsum ástæðum. þannig hafi byggingarlóðin verið dýr, vinnan við svansvottun hækkað byggingarkostnaðinn töluvert auk sem ákveðið hafi verið að spara ekkert varðandi gæði hönnunar og efnis. Þá hafi byggingarreglugerðin verið íþyngjandi.

Ekki liggur endanlega fyrir hver kostnaður við bygginguna verði en búist er við að hægt verði að leigja minnstu íbúðirnar fullbúnar með húsgögnum og húsbúnaði á undir 100 þúsund krónur á mánuði og engu að síður verið með eðlilega ávöxtun á fjárfestingunni. „Það er minna en fólk er að greiða fyrir greni hér og þar í bænum,“ er haft eftir Þórarni.

Stærsta íbúðin í húsinu.
Stærsta íbúðin í húsinu. Teikning/IKEA
mbl.is

Bloggað um fréttina

Loka