Hvöss norðanátt og blint til aksturs

mbl.is/Sigurður Aðalsteinsson

Í dag dýpkar lægð fyrir suðaustan land og við það gerir hvassa norðanátt, allt að 15-20 m/s. Reikna má með skafrenningi og á köflum verður mjög blint til aksturs, einkum frá Breiðamerkursandi og austur á Hérað. Þá verður ofanhríð á Austfjörðum.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Vegagerðinni.

Þar segir um færð og aðstæður:

Það er hálka og snjóþekja fyrir austan Hvolsvöll en annars eru vegir greiðfærir á Suðurlandi.

Á Vesturlandi er hálka og skafrenningur á Holtavörðuheiði en hálkublettir á Bröttubrekku. Snjóþekja er á Fróðárheiði og hálkublettir á norðanverðu Snæfellsnesi.

Vetrarfærð er á flestum fjallvegum á Vestfjörðum en hálkublettir eða greiðfært á láglendi. Þungfært er á Steingrímsfjarðarheiði og á Hálfdáni, þæfingur og skafrenningur er á Klettshálsi en ófært um Þröskulda, Hrafnseyrarheiði og  Dynjandisheiði.

Á Norðurlandi vestra er snjóþekja á Siglufjarðarvegi og hálkublettir nokkuð víða s.s. á Þverárfjalli og Vatnsskarði.  

Á Norðausturlandi er hálka mjög víða á fjallvegum s.s. á Öxnadalsheiði, Víkurskarði og Dettifossvegi, hálkublettir eru mjög víða á láglendi. Á Austurlandi er snjóþekja eða hálkublettir. Þungfært á Breiðdalsheiði en Öxi er ófær.

Snjóþekja er með suðausturströndinni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert