Hópslys helsta almannavarnaváin

Frá landsþinginu á Akureyri.
Frá landsþinginu á Akureyri. Ljósmynd/Aðsend

Landsþing Slysavarnafélagsins Landsbjargar var sett á Akureyri fyrr í dag af Smára Sigurðssyni formanni félagsins.

„Það liggur fyrir að helsta almannavarnavá okkar Íslendinga eru hópslys af öllu tagi. Að hafa tiltækt skipulag, viðbragðsáætlanir og æfa þær reglulega verður til þess að við stöndum betur að vígi þegar í nauðir rekur. Við verðum að vera búin undir það versta en vona það besta,“ sagði Smári, að því er kemur fram í tilkynningu.

Smári minntist einnig á baklandið sem gerir sjálfboðaliðum kleift að stökkva í útkall hvenær sem er. „Það þarf velviljaða vinnuveitendur og samstarfsfólk til að hliðra til og jafnvel taka byrðarnar. Ekki síður þarf ríkulegan stuðning fjölskyldu og vina til að allt gangi upp.“

Frá landsþinginu.
Frá landsþinginu. Ljósmynd/Aðsend

Fjöldi gesta var viðstaddur en alls taka hátt í 600 sjálfboðaliðar úr björgunarsveitum og slysavarnadeildum þátt í þinginu sem stendur föstudag og laugardag.

Jón Gunnarsson samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra ávarpaði gesti og bar þeim kveðjur frá ríkisstjórninni auk þess að ræða mikilvægi viðbragðsaðila í samfélagi okkar íslendinga.

Slysavarnafélagið Landsbjörg afhenti Ölgerðinni og Icelandair Group Áttavitann, viðurkenningu félagsins fyrir áralangan stuðning. Þau Andri Þór Guðmundsson forstjóri Ölgerðarinnar og Sigrún Björg Jakobsdóttir hótelstjóri Icelandair Hotels á Akureyri tóku á móti viðurkenningum.

Þrjú félög Slysavarnafélagsins Landsbjargar fengu afhentan heiðursskjöld, æðstu viðurkenningu félagsins sem eru veitt einstaklingum fyrir sérlega fórnfúst starf í þágu þess. Voru það þeir Hörður Már Hermannsson fyrrum formaður, Hannes Frímann Sigurðsson og Þórhallur Ólafsson.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert