Hófu kosningabaráttuna í Valhöll

Halldór Halldórsson, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, flutti ávarp.
Halldór Halldórsson, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, flutti ávarp. Ljósmynd/Sjálfstæðisflokkurinn

Sjálfstæðismenn í Reykjavík hófu kosningabaráttu fyrir komandi borgarstjórnarkosningar með fjölmennu málefnaþingi í Valhöll um helgina. Þingið fór fram dagana 19. og 20. maí og sóttu það um 250 manns. Unnið var að stefnumótun á vettvangi sex málefnanefnda og er afrakstur málefnastarfsins grundvöllur að stefnu flokksins í komandi kosningu.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Verði, fulltrúaráði sjálfstæðismanna í Reykjavík.

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, ávarpaði fundargesti.
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, ávarpaði fundargesti. Ljósmynd/Sjálfstæðisflokkurinn

Á þinginu fluttu sérstök ávörp þau Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, Halldór Halldórsson, oddviti flokksins í Reykjavík, Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra, Gísli Kr. Björnsson, formaður fulltrúaráðsins Varðar, og Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, ritari flokksins.

Í tilkynningu frá Verði segir, að í ályktunum þingsins komi fram að lóðaskortur með tilheyrandi skorti á húsnæði sé ekki bara skipulagsmál heldur líka velferðarmál.

Tilverugrundvöllur að eiga þak yfir höfuðið

„Að eiga þak yfir höfuð sér er ekki bara einhver statístík heldur tilverugrundvöllur, lífið snýst um að búa börnunum sínum gott heimili í hverfi þar sem þau sækja skóla og vaxa úr grasi. Skipulagsmál eru ekki kort og tölur, þau snúast um lífið sjálft. Sjálfstæðimenn vilja tryggja að ávallt sé nægjanlegt framboð af lóðum til sölu og að byggingarréttargjald verði fellt niður. Þannig verði tryggt að lóðir í nýbyggingarhverfum séu seldar á kostnaðarverði.“

Þá segir að sjálfstæðismenn leggi áherslu á skipulagsmál í ályktunum sínum og bendi á að góðar samgöngur séu undirstaða nútímalífshátta. Undanfarna áratugi hafi þessum málum hins vegar ekki verið sinnt sem skyldi í Reykjavík. „Framtíðar byggingarland borgarinnar til norðurs og austurs hafi ekki verið opnað með stofnbrautum og hafi þetta m.a. valdið umferðartöfum og stuðlað að hækkandi fasteignaverði. Þá komi fram að öryggi í umferðarmálum hafi vikið fyrir gæluverkefnum undir stjórn núverandi meirihluta. Nauðsynlegt sé að forgangsraða í þágu viðhalds og uppbyggingar á vegakerfi höfuðborgarinnar með öryggi að leiðarljósi.“

Vilja aukið sjálfstæði og sveigjanleika í skólastarfi

Í skólamálum vilja sjálfstæðismenn auka fjölbreytni í skólastarfi og fjölga valkostum í námsleiðum og rekstrarformi skóla. Meta þurfi hvort skóli án aðgreiningar hafi skilað tilætluðum árangri og hvaða áhrif sú stefna hafi haft á kennara, nemendur og foreldra þeirra. Áhersla verði færð frá miðstýringu í átt að auknu sjálfstæði og sveigjanleika í skólastarfi. Þá er lagt til að fjármagn til náms fylgi hverjum nemanda og að stjórnendur hafi svigrúm til að stýra skólum sínum með ólíkum áherslum. Þannig verði fjölbreytni í skólastarfi aukin og valkostum fjölgað.

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra í pontu.
Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra í pontu. Ljósmynd/Sjálfstæðisflokkurinn

Sjálfstæðisflokkurinn vill að útsvar verði lækkað í áföngum og komið niður fyrir meðalútsvar á landsvísu á næsta kjörtímabili. Markmið til lengri tíma er samkvæmt ályktun þingsins að útsvarið fari í lögbundið lágmark. Mikilvægt sé að sýna ráðdeild í rekstri borgarinnar og hverfa frá þeim lausatökum sem viðgengist hafa í tíð núverandi meirihluta.

Vilja afnema skyldu um að fjölga borgarfulltrúum

Að lokum lýsti þing Sjálfstæðismanna í Reykjavík sig fylgjandi því að afnumin verði sú skylda sem hvílir á Reykjavíkurborg samkvæmt lögum að fjölga borgarfulltrúum úr 15 í að minnsta kosti 23 við næstu sveitarstjórnarkosningar.

Ályktanir þingsins má finna hér. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert