Fallist á kröfur ljósmæðra

Frá verkfalli ljósmæðra.
Frá verkfalli ljósmæðra. mbl.is/Guðmundur Rúnar Guðmundsson

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur komist að þeirri niðurstöðu að ríkinu hafi verið óheimilt að skerða laun fimm ljósmæðra, sem störfuðu á Landspítalanum á því tímabili sem verkfallsaðgerðir Ljósmæðrafélags Íslands stóðu yfir árið 2015, með þeim hætti sem gert var.

Ríkinu beri að greiða ljósmæðrunum fjárhæðir sem nema hinni ólögmætu skerðingu ásamt dráttarvöxtum, auk málskostnaðar.

Dómur var kveðinn upp í málinu í gær af Ingiríði Lúðvíksdóttur, settum héraðsdómara. Fram kemur í frétt frá Bandalagi háskólamanna (BHM) að héraðsdómur telji að aðferð ríkisins við að reikna út laun ljósmæðranna hafi hvorki staðist ákvæði kjarasamnings né meginreglur vinnuréttar.

Ríkinu hafi borið að reikna þeim laun út frá því hversu hátt hlutfall vinnuskyldu sinnar þær inntu af hendi á verkfallstímanum. Störfin hafi verið unnin, vinnutímarnir inntir af hendi og fyrir það eigi að greiða laun, segir m.a. í niðurstöðu héraðsdóms skv. frétt BHM. Fallist er í einu og öllu á kröfur stefnenda hvað varðar fjárhæðir vangoldinna launa og að auki er ríkið dæmt til að greiða hverri og einni þeirra 250 þúsund krónur í málskostnað.

Dómurinn hefur fordæmisgildi

„Ljóst er að niðurstaða héraðsdóms hefur fordæmisgildi gagnvart öðrum ljósmæðrum sem sættu hliðstæðum launaskerðingum og ljósmæðurnar fimm sem höfðuðu málið. Þá mun niðurstaðan hafa fordæmisgildi gagnvart öðrum fagstéttum sem vinna vaktavinnu á Landspítala og sættu launaskerðingum líkt og ljósmæður í verkfallinu árið 2015.

Bandalag háskólamanna og hlutaðeigandi stéttarfélög munu fylgja því fast eftir að félagsmenn sem brotið hefur verið á fái hlut sinn leiðréttan,“ segir í frétt BHM.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert