Ákvörðun Trump „vonbrigði en engin endalok“

Donald Trump Bandaríkjaforseti.
Donald Trump Bandaríkjaforseti. AFP

„Þetta eru vonbrigði en þetta þýða ekki nein endalok,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra í samtali við mbl.is um þá ákvörðun Bandaríkjaforseta að draga Bandaríkin út úr Parísarsamkomulaginu. Hann segir augljóslega ríkja mjög skiptar skoðanir í Bandaríkjunum um málið.

„Það er alveg ljóst að bæði stór fylki og stórar borgir munu fylgja þessu áfram, sömuleiðis risafyrirtæki sem að munu vinna áfram að þessum málum og þessum markmiðum,“ segir Guðlaugur Þór. „Þannig að þetta eru vonbrigði en engin endalok og ég treyst því nú að Bandarísk stjórnvöld almennt muni nú vinna að því að, vinna að svipuðum markmiðum, þó að menn séu ekki aðilar að þessu samkomulagi.“

Lykilatriði að halda ótrauð áfram

Spurður hvort hann telji brotthvarf Bandaríkjanna frá samkomulaginu gefi tilefni til þess að önnur ríki heims taki betur höndum saman og efli enn frekar sitt samstarf í baráttunni gegn loftslagsbreytingum segir Guðlaugur Þór svo vera.

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra.
Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra.

„Það er lykilatriði að halda ótrauð áfram og þetta snýst svo sem líka allt um það að vinna aðila á sitt band. Ákvörðun sem þessi getur aldrei verið endanleg. Við þekkjum það auðvitað bara úr bandarískum stjórnmálum og öðrum að viðhorf breytast og ákvarðanir breytast, þannig að við þurfum bara að halda ótrauð áfram og vinna þessum málum fylgi,“ segir Guðlaugur Þór.

„Við höfum náttúrlega gert það,“ segir þá Guðlaugur Þór, spurður hvort íslensk stjórnvöld hafi sent Bandaríkjaforseta einhverja formlega orðsendingu vegna þessa. „Forsætisráðherra gerði það með ráðherrum Norðurlandanna og ég og umhverfisráðherra höfum sömuleiðis verið með ákveðin skilaboð og gerðum það bæði fyrir og eftir ákvörðunina. Þannig að okkar afstaða er alveg skýr,“ segir utanríkisráðherra að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert