Borgin vill rukka fyrir nagladekk

Loftmengun í Reykjavík.
Loftmengun í Reykjavík. mbl.is/Rax

Umhverfis- og skipulagsráð Reykjavíkurborgar vill gjaldtökuheimild á nagladekk í umferðarlög. Tillaga þess efnis frá umhverfis- og skipulagssviði borgarinnar var samþykkt í dag. Er sviðinu þá falið að koma tillögu að lagabreytingu á framfæri við samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið og Alþingi.

Í tilkynningu frá Reykjavíkurborg segir að hlutfall bíla á nöglum hafi hækkað að undanförnu og að nauðsynlegt sé að bregðast við því með einhverjum hætti.

„Bíll á nagladekkjum slítur malbiki um það bil hundraðfalt hraðar en bíll á ónegldum dekkjum. Það er staðreynd þrátt fyrir jákvæða þróun á gerð naglanna. Áhrifaþættir á slit malbiks eru m.a. gerð nagla, fjöldi nagla í dekki, þyngd ökutækis, hraði og ökulag,“ segir í tilkynningunni.

Eru þá taldir upp eftirfarandi kostir þess að ekki sé ekið um göturnar á negldum dekkjum: Minna slit á malbiki á götum, minna svifryk, minni kostnaður við hreinsun gatna, niðurfalla og gangstétta, minni hávaði af umferð næst vegi, minni eyðsla eldsneytis og loks betra andrúmsloft sem leiði af sér bætt heilsufar almennings.

Gjaldtaka af notkun nagladekkja er einnig sögð hafa gefið góða raun í Noregi, eða í Ósló, Þrándheimi og Bergen.

„Hlutfall bifreiða á nagladekkjum drógst drjúglega saman þar eftir gjaldtökuna, eða úr 50% í um 15%. Á sama tíma hefur svifryk minnkað í öllum þremur borgunum. Samdrátturinn er að miklu leyti rakinn til gjaldtökunnar.“

Greiddu atkvæði gegn tillögunni

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins greiddu atkvæði gegn tillögunni og lögðu fram bókun ásamt Framsókn og flugvallarvinum. 

Segir í bókuninni að meirihlutinn hafi fellt tillögu Sjálfstæðisflokksins um að heimild yrði ekki samþykkt nema að undangenginni íbúakosningu. Mikilvægt sé að hafa í huga að borgarbúar sem noti nagladekk geri það vegna þess að þeirra öryggistilfinning segi þeim að þannig séu þeir öruggari í umferðinni.

„Auk þess búa margir í íbúðagötum þar sem mikill halli er og léleg þjónusta. Þessir íbúar hafa ekki fundið aðra leið en að nota nagla. Með gjaldtöku er verið að refsa þeim fyrir að búa á stöðum þar sem íbúðagötur eru ekki almennilega færar marga daga í röð þar sem þær eru ekki mokaðar. Til að gera nagladekk óþörf þarf betri vetrarþjónustu en er í boði í dag.

Hluti röksemdarfærslu meirihlutans fyrir því að hefja gjaldtöku vegna nagladekkja snýr að svifryki. Besta leiðin til að vinna gegn svifryki er að þrífa göturnar oftar en það hefur verið vanrækt.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert