Loðnir nýbúar á Kvíabryggju

Hér má sjá tvo af nýjustu íbúum Kvíabryggju.
Hér má sjá tvo af nýjustu íbúum Kvíabryggju. Mynd/Fangelsismálastofnun ríkisins

Sauðburði lauk í Fangelsinu Kvíabryggju í síðustu viku þar sem rúmlega 190 lömb fæddust. Páll Winkel fangelsismálastjóri segir búskapinn vera hluta af stefnu fangelsisins til að finna fjölbreyttari vinnu fyrir fanga.

Þau byrjuðu smátt fyrir nokkrum árum þegar þau keyptu fjárhús í nágrenninu og eru með þar í dag bæði sauðfé og fugla ásamt því að vera með bleikjueldi í Fangelsinu Sogni auk kartöflugarða svo eitthvað sé nefnt.

„Við erum bæði að reyna að finna fjölbreytta vinnu fyrir fanga en auk þess að hafa af þessu einhverjar tekjur,“ sagði Páll í viðtali við blaðamann. Segir hann bæði fanga og fangaverði vinna þar gott starf og hafa gaman af. Er þetta töluverð búbót fyrir fangelsið, en ásamt búskapnum hafa þau líka reykt sitt eigið kjöt á staðnum.

Aðspurður hvernig búskapurinn leggist í fangana segir Páll alla leggja sig mikið fram. Margir þeirra hafa aldrei komið nálægt dýrum og búskap áður og læra því ýmis ný handtök í gegnum starfið ásamt því að ná betri tengingu við náttúruna í leiðinni.

Einnig vill hann vekja athygli á því að Fangelsismálastofnun sé alltaf að leita að fjölbreyttari vinnu fyrir fanga og að þau taki vel á móti öllum hugmyndum sem berast.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert