Yfir 200 kvartanir vegna mengunar

Kísilverksmiðja United Silicon í Helguvík.
Kísilverksmiðja United Silicon í Helguvík. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

„Markmiðið er að hita ofninn nógu mikið þannig að þessar lofttegundir séu ekki að myndast en það tekur tíma að hita hann upp eftir svona langt stopp,“  segir Sigrún Ágústsdóttir, sviðsstjóri hjá Umhverfisstofnun. 

Greint var frá því á fréttavef Ríkisútvarpsins í dag að yfir 200 kvartanir hefðu borist Umhverfisstofnun á þeim þremur vikum sem hafa liðið frá því að United Silicon var heimilað að endurræsa ofn verksmiðjunnar. Íbúar í nágrenninu hefðu til að mynda fundið fyrir ertingu í öndunarvegi eftir að ofninn var ræstur. 

Hefðbundin mengunarefni eins og svifryk, brennisteinsdíoxíð og brennisteinsvetni hafa mælst undir viðmiðunarmörkum í umhverfinu og er því ekki ljóst hvaða efni valda loftmenguninni. Í verkfræðiúttekt síðasta mars gátu loftgæðasérfræðingar sér til um það að efnin sem um ræðir geti verið maurasýra, ediksýra, methyl klóríð, methyl mercaptan og ýmis aldehýð. Þau geta í mjög lágum styrkt haft ertandi áhrif á öndunarveg. Norsk verkfræðifyrirtæki vinnu nú að því að greina hver efnin séu. 

„Þetta eru efni sem ekki var gert ráð fyrir að mæla í matsgögnum eða umsóknargögnum og ekki gerð krafa að yrði í mæliáætlun. Við uppfærum þetta mat þegar niðurstöðurnar koma 30. júní,“ segir Sigrún. Spurð hvað taki við ef þess konar efni finnist segir Sigrún að stofnunin þurfi að ráðfæra sig við sérfræðinga áður en úrræðum er beitt. 

„Magnið skiptir máli. Við munum fara yfir þetta með loftgæðasérfæðingum og leita aðstoðar sóttvarnalæknis. Ef til þess kemur höfum við ýmis konar úrræði. Það er hægt að krefjast þess að starfsemi sé hagað á ákveðinn hátt, að hún sé takmörkuð eða að gerðar séu úrbætur þannig að þessi efni myndist ekki. Það er hugmyndin með úrbótunum sem hefur verið unnið í að undanförnu þar sem ofninn er hitaður óvenjumikið.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert