Réðst að stýrimanni um borð í Herjólfi

Farþegi um borð í Herjólfi gekk berseksgang á föstudag.
Farþegi um borð í Herjólfi gekk berseksgang á föstudag. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Farþegi Herjólfs gekk berseksgang um borð á föstudag þar sem hann sló til stýrimanns og réðst að honum. Fleiri manns þurfti til að ná manninum niður og tryggja að hann yrði engum að meini þar til lögregla kom á vettvang.

Málið litið alvarlegum augum 

Gunnlaugur Grettisson, rekstrarstjóri Herjólfs, segir í samtali við mbl.is að málið sé litið mjög alvarlegum augum. „Þetta er sem betur fer mjög einstakt atvik, en engu að síður mjög dapurt“, segir Gunnlaugur og segir eitt slíkt atvik einu of mikið.

Maðurinn sló til og réðst að stýrimanni á Herjólfi við komu í Landeyjahöfn. Stýrimaður Herjólfs meiddist ekki alvarlega og var mættur til vinnu aftur daginn eftir. „Málið var kært og fer sína réttu leið og viðkomandi farþegi var færður í burtu í fylgd lögreglu“, segir Gunnlaugur.

Að sögn Gunnlaugs þurfti marga til aðstoðar við að ná manninum niður til þess að tryggja öryggi allra í kring þar til lögregla kom á svæðið. „Sem betur fer voru þarna á vettvangi einstaklingar sem voru tilbúnir að aðstoða, bæði úr hópi starfsmanna og farþegar sem sáu hvers kyns var,“ segir Gunnlaugur.

Var með dónaskap í afgreiðslu

Maðurinn var að ferðast með Herjólfi frá Vestmannaeyjum til Landeyjahafnar og er erlendur ferðamaður. Hann var mjög dónalegur strax í upphafi við starfsfólk afgreiðslu í Vestmannaeyjum og segir Gunnlaugur það ekki síður alvarlegt. „Því miður er það alltof oft sem fólk leyfir sér að hreyta í mitt góða starfsfólk út af hlutum sem það á engan þátt í“, segir Gunnlaugur og bætir við að fólk ætti alltaf að gæta að því að sýna starfsfólki kurteisi og skilning.

Aðspurður hvort hefði átt að meina manninum inngöngu í Herjólf segir Gunnlaugur: „Það er alltaf erfitt að segja til hvenær á að grípa til þeirra aðgerða og alltaf hægt að vera vitur eftir á.“ Gunnlaugur segir engan hafa gert ráð fyrir því að maðurinn myndi ganga berseksgang við komu til Landeyjahafnar.

Heimilt að neita fólki um far

Gunnlaugur segir að samkvæmt verklagsreglum sé heimilt að neita fólki um far. „Skipstjóri hefur bara heimild til þess að taka ákvörðun um það, en auðvitað þarf að hann að vita af því,“ segir Gunnlaugur en í þessu tilviki hafi ekki verið tilkynnt um hegðan mannsins í afgreiðslu í Vestmannaeyjum. „Mínir góðu starfsmenn meta hvert tilfelli fyrir sig og þarna var ekki farið í að tilkynna það af ýmsum ástæðum,“ segir Gunnlaugur.

Málið fer nú sinn farveg hjá lögreglu og eins er öryggisdeild Eimskips með málið til skoðunar. „Við tökum þetta atvik að sjálfsögðu mjög alvarlega og erum mjög slegin yfir þessu,“ segir Gunnlaugur að lokum.

mbl.is