Hreiðar Már áfrýjar í Marple-máli

Hreiðar Már Sigurðsson. Við hlið hans er Hörður Felix Harðarson, …
Hreiðar Már Sigurðsson. Við hlið hans er Hörður Felix Harðarson, verjandi hans. mbl.is/Ómar Óskarsson

Hörður Felix Harðarson, lögmaður Hreiðars Más Sigurðssonar, fyrrverandi forstjóra Kaupþings og eins sakborninga í Marple-málinu svonefnda, segir að dómi Héraðsdóms Reykjavíkur sem féll í gær verði áfrýjað. „Það er alveg ljóst að þessum dómi verður áfrýjað enda teljum við efnislega niðurstöðu dómsins í öllum atriðum ranga,“ segir Hörður.

Dæmt var í Marple-málinu öðru sinni í gær, en fyrri dómur Héraðsdóms Reykjavíkur var ómerktur af Hæstarétti vegna vanhæfis eins dómarans. Þá var Hreiðari Má dæmd sex mánaða refsing, en í gær var refsingin tvöfalt lengri, 12 mánuðir. Er þetta í fyrsta sinn sem refsirammi auðgunarbrota fer yfir sex ár en Hreiðari Má hafði áður verið gert að sæta fangelsi í fimm ár og sex mánuði.

„Refsiákvörðunin er síðan hreint út sagt óskiljanleg. Við fyrri meðferð málsins fyrir rétt um tveimur árum síðan taldi dómurinn hæfilegt að dæma umbjóðanda minn til sex mánaða fangelsisrefsingar en með því var refsingin færð í sex ár sem er hámarkið samkvæmt umræddum lagaákvæðum. Við þá ákvörðun var tekið tillit til tveggja annarra dóma sem þá höfðu fallið,“ segir Hörður Felix.

Hörður Felix Harðarson, lögmaður Hreiðars Más Sigurðssonar.
Hörður Felix Harðarson, lögmaður Hreiðars Más Sigurðssonar.

„Nú þegar málið er endurflutt þá er það hins vegar mat dómsins, en meirihluta dómsins skipa sömu dómarar og áður, að hæfileg refsing sé 12 mánuðir og refsing færð í sjö ár. Við þá refsingu er sem fyrr horft til sömu tveggja mála og áður höfðu verið dæmd. Það eina sem hefur gerst í millitíðinni er að málsmeðferðartíminn hefur lengst um heil tvö ár þar sem fyrri meðferð málsins var ólögmæt og því ómerkt af Hæstarétti. Umbjóðandi minn geldur því fyrir að hafa bent á augljóst vanhæfi dómara við fyrri meðferð málsins,“ heldur Hörður Felix áfram.

Frá dómsuppkvaðningu í Héraðsdómi Reykjavíkur í gær.
Frá dómsuppkvaðningu í Héraðsdómi Reykjavíkur í gær. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Við þessa niðurstöðu verður ekki unað“

Þá segir Hörður Felix að við meðferð mála á hendur Hreiðari Má hafi verið vikið frá þeirri meginreglu sakamálalaga að sækja skuli mann til saka í einu máli ef saksótt er fyrir fleiri en eitt brot.

„Þetta hefur leitt til þess að rannsókn þessara mála og meðferð fyrir dómi hefur nú þegar tekið meira en 8 ár. Þetta hefur einnig leitt til þess að umbjóðandi minn hefur ekki getað tekið refsingu út í einu lagi, eins og rétt hefði verið, heldur hefur hann nú tvívegis farið í gegnum þetta ferli með allri þeirri röskun sem því fylgir,“ segir Hörður Felix.

„Þessi málsmeðferð er vitanlega forkastanleg en héraðsdómur telur eftir sem áður rétt að bæta enn í með því að vísa í ákvæði þar sem dómstólum virðist veitt heimild til að auka við refsingu „eftir málavöxtum“. Gildi þessa ákvæðis sem refsiheimildar er mjög vafasamt, svo ekki sé meira sagt, en að beita því við þessar aðstæður er algjörlega makalaust. Við þessa niðurstöðu verður ekki unað.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert